Forstjóri Marriott látinn

Arne M. Sorenson.
Arne M. Sorenson.

Arne M. Sorenson, forstjóri hótelkeðjunnar Marriott, er látinn 62 ára að aldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, en þar segir enn fremur að andlát hans sé óvænt. Sorenson þótti einstakur leiðtogi og var afar öflugur stjórnandi. 

Í maí árið 2019 var greint frá því að forstjórinn væri að glíma við krabbamein í brisi, en strax í kjölfarið hóf hann lyfjameðferð. Fyrr í mánuðinum var síðan greint frá því að hann myndi minnka við sig vinnu til að halda í stífari lyfjameðferð. Fráfall hans kemur tveimur vikum eftir umrædda tilkynningu. 

Sorenson varð þriðji forstjóri í sögu hótelkeðjunnar árið 2012, en hann var enn fremur sá fyrsti sem ekki bar nafnið Marriott. Í tilkynningu frá Marriott kemur fram að Sorenson hafi unnið hörðum höndum að því að efla fyrirtækið, en gríðarlega ánægja ríkti með störf hans innan keðjunnar. 

Ótrúlegur forstjóri

„Arne var ótrúlegur forstjóri, en það sem meira máli skiptir er að hann var mögnuð manneskja,“ var haft eftir J.W. Marriott Jr., stjórnarformanni Marriott. „Arne elskaði fyrirtækið og eyddi tíma sínum í að ferðast á milli hótela okkar um heim allan. Hann hafði einstakt lag á að vita hvert á að stefna til að stækka vörumerkið Marriott.

Hann var jafnframt einstakur faðir, eiginmaður, bróðir og vinur. Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna Marriott um heim allan sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur til eiginkonu Arne og fjögurra barna hans. Við munum sakna hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK