Bjarni á ekkert bitcoin

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tekur undir sjónarmið Rafmyntaráðs um að það hafi verið gæfa að ekki hafi verið ráðist í lagasetningu þegar í stað þegar rafmyntir komu fram á sjónarsviðið. 

Hann telur bálkakeðjutæknina sem bitcoin byggir á geta verið tækni framtíðarinnar.

Ráðherra fundaði með fulltrúum ráðsins á dögunum um umhverfi rafmyntar á Íslandi, eins og hinnar vinsælustu, bitcoin.

Síaukin umræða er um fyrirbærið og í takt við það heldur myntin áfram að verða æ verðmætari. Í janúar keyptu Íslendingar þannig bitcoin fyrir alla vega 600 milljónir hjá Myntkaupum ehf. og virði eins bitcoins er orðið meira en 50.000 Bandaríkjadalir, samanborið við einn Bandaríkjadal árið 2011.

Stöðug hækkun truflar ekki

Í samtali mbl.is við ráðherra um rafmyntir kom meðal annars fram að hann sjálfur eigi ekki bitcoin.

„Nei, ég hef aldrei stundað viðskipti með rafmynt.“ Myndi þig langa það? „Ég myndi ekki líta á það sem eitthvað til að prófa. Ég myndi ekki vera spenntur fyrir því.“

Finnst þér ekki leiðinlegt að sjá þetta ár eftir ár verða verðmætara án þess að þú eigir eitthvað í þessu? „Nei, það truflar mig ekki neitt.“

Lúti þegar eftirliti Seðlabankans

Rafmyntaráð sendi stjórnvöldum minnisblað á dögunum þar sem tæpt var á ýmsu í umhverfi myntarinnar hér á landi. Efni minnisblaðsins var síðan rætt á fundi ráðherra við Kjartan Ragnars og Kristján Inga Mikaelsson. Nokkuð hefur verið rætt um að lítið eftirlit sé með rafmyntarviðskiptum á veraldarvísu.

„Það eru aðilar sem hafa milligöngu um viðskipti með rafmynt sem lúta þegar eftirliti Fjármáleftirlitsins og það tryggir upp að vissu marki yfirsýn yfir umfangið, sem er greinilega að vaxa töluvert,“ segir Bjarni.

Sömuleiðis segir hann að það sé ekki endilega ástæða til mikilla áhyggja af því að bitcoin sé notað eftirlitslaust í ólöglegum viðskiptum. Þó skipti máli að skattkerfið sé skýrt þegar um mikinn ávinning er að ræða.

Það skiptir miklu máli að við höldum áfram að fylgjast vel með og bregðumst við eftir aðstæðum,“ segir Bjarni. „Eitt af því sem kom fram á fundinum var að það hafi verið gæfa þykjast ekki fyrir nokkrum árum síðan getað séð framtíðina fyrir með því setja lög og reglur um alla skapaða hluti, heldur hafi það upp vissu marki verið skynsamlegt bíða og sjá og ganga í takt við aðra í þeim efnum.“

Víkur fjármálakerfið fyrir bálkakeðju?

Bjarni segir ekki nauðsynlega andstætt hagsmunum ríkisvaldsins að styðja við framgang rafmyntar sem lýtur eigin lögmálum. Þetta sé ekki komið á þann stað að rafmyntin sé eitthvað sem ekki er hægt að hafa neina stjórn á.

„Það sem mér finnst hins vegar áhugaverðast,“ segir Bjarni að lokum, „er að skoða möguleika fyrir ríki og samfélög sem byggja á bálkakeðjutækninni.“ 

„Bitcoin byggir á bálkakeðjutækni og nú eru einstök ríki byrjuð að skoða möguleika sem bálkakeðjur geta boðið upp á og það getur verið allt frá þinglýsingum yfir í alls konar rekjanleg eignaskipti. Þetta er dálítið tækni framtíðarinnar. Það er kannski frekar þar sem ég held að við ættum sem samfélag að skoða betur hvernig við getum hagnýtt okkur þessa undirliggjandi tækni,“ segir Bjarni.

Þannig geti farið svo að fjármálakerfið endi á að víkja fyrir milliliðalausari viðskiptum sem grundvallast á bálkakeðjutækninni.

Bálkakeðjurnar sem bitcoin byggir á eru í stuttu máli tækni sem bindur upplýsingar um vörur og gjaldmiðla í stóru neti þegar færslur eiga sér stað, þannig að mjög erfitt verður að falsa féð eða beita brellum með það. Það þykir öruggt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK