Endaði óvart með nokkur bretti

Karlar í Berlín, eins og Dressmann-auglýsing, nema bara fyrir Club …
Karlar í Berlín, eins og Dressmann-auglýsing, nema bara fyrir Club Mate. Frá vinstri eru Dagur Kári Gnarr, Ágúst Berg Arnarsson, Hörður Ágústsson (í miðjunni) og Finnbogi Karl Andrésson með flösku af Club Mate. Ljósmynd/Aðsend

Club Mate: Kolsýrt léttsykrað íste með maté-extrakti og hæfilegu magni af koffíni (20mg/100ml). Þetta er svaladrykkur sem þeir Íslendingar þekkja vel sem hafa búið í Þýskalandi um skemmri eða lengri tíma.

Sumir lenda jafnvel í því að ánetjast drykknum meðan á dvölinni stendur og þá eru vonbrigðin þeim mun sárari þegar heim til Íslands er komið. Þar hefur jafnan verið mjög erfitt að fá Club Mate.

Hörður Ágústsson í Macland kveið þessu augnabliki. Hann er að flytja heim til Íslands í sumar eftir nokkurra ára dvöl í Berlín og ákvað í örvæntingu sinni að grípa til sinna eigin ráða og kaupa sér nokkra kassa af drykknum til að eiga heima.

„Ég talaði við brugghúsið, Löscher, og þeir efuðust fyrst um að leyfa mér þetta. Svo bötnuðu samskiptin þegar ég útskýrði fyrir þeim að ég hefði verið með fyrirtæki í rekstri hér á Íslandi í tíu ár. 

Flaskan er á um 330 krónur ef maður kaupir kassa …
Flaskan er á um 330 krónur ef maður kaupir kassa og koffíninnihald eins og í einum litlum Red Bull. Ljósmynd/Wikipedia

Þegar kom að því að senda sjálfa drykkina spurðu þeir mig hins vegar allt í einu bara: Hvað viltu mörg bretti? Þá sá ég að ég var ekkert að fara bara að taka nokkra kassa með mér heim, heldur væri ég bara kominn í innflutning,“ segir Hörður í samtali við mbl.is.

Ekki króna í auglýsingar

Svo fór að lokum að til landsins komu nokkur bretti af drykknum, sem nú er fáanlegur ískaldur í Melabúðinni, Kaffi Vest, Skúrnum á Stykkishólmi, Prikinu og Röntgen.

Einnig er hægt að kaupa kassa af drykknum á vefsíðu Macland, en innflutningsstarfsemin er þó ekki gerð í nafni Macland heldur lítils fjölskyldufélags sem Hörður og kona hans Svala Hjörleifsdóttir stofnuðu utan um starfsemina. Félagið heitir Bundesland ehf. og titlar í skipuriti þess eru að sögn Harðar í sama anda, hann er Bürgermeister og Svala er Bundeskanzlerin.

Þegar hefur verulegt magn af Club Mate selst og ekki krónu verið eytt í auglýsingar. Nokkuð var pískrað um áformin á samfélagsmiðlum og má ætla að sú umræða öll hafi skilað sér í eftirspurn, sem er mekanismi sem Hörður hefur einnig reynt að beita fyrir sig í málefnum tækniverslunar sinnar Macland.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK