Langisjór kaupir Ölmu

Alma íbúðafélag var stofnað árið 2014 og rekur rúmlega 1.100 …
Alma íbúðafélag var stofnað árið 2014 og rekur rúmlega 1.100 íbúðir sem eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Selfossi, Akranesi og víðar um land. mbl.is/Ómar Óskarsson

Langisjór ehf. hefur keypt allt hlutafé í Ölmu íbúðafélagi hf. Kaupin eru m.a. gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Alma hefur síðustu ár verið í eigu fagfjárfestasjóðs í rekstri GAMMA Capital Management.

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu segir að núverandi viðskiptavinir ættu ekki að finna fyrir neinum breytingum á þjónustunni með nýju eignarhaldi félagsins.

„Alma var fyrst íbúðafélaga á Íslandi til að bjóða upp á langtímaleigusamninga sem tryggja örugga búsetu og verðvernd til allt að sjö ára. Þjónustan hefur mælst afar vel fyrir en frá því félagið hóf að bjóða upp á þjónustuna vorið 2019 hefur fjórðungur viðskiptavina valið að nýta sér hana. Tæplega 70% viðskiptavina Ölmu hafa leigt íbúð af félaginu í tvö ár eða lengur og samkvæmt nýrri þjónustukönnun sem Gallup framkvæmdi fyrir félagið eru tæplega 90% viðskiptavina ánægð með þá þjónustu sem Alma býður upp á,“ segir í fréttatilkynningu.

Langisjór ehf. er fjölskyldufyrirtæki í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Langisjór ehf. er móðurfélag nokkurra fyrirtækja í framleiðslu og dreifingu á matvælum. Meðal fyrirtækja í samstæðu Langasjávar ehf. eru Mata hf., Matfugl ehf. og Síld og fiskur ehf. Þá er fjárfestingarfélagið Brimgarðar ehf. einnig dótturfélag Langasjávar ehf.

„Með kaupunum á Ölmu lítum við til framtíðar. Rekstur og útleiga fasteigna verður áfram kjarnastarfsemi félagsins og á komandi árum ætlum að hjálpa til við að tryggja framboð á hagkvæmu og góðu íbúðarhúsnæði með þátttöku í fasteignaþróun og byggingu fjölbýlishúsa,” segir Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður Langasjávar ehf., í fréttatilkynningu.

Alma íbúðafélag var stofnað árið 2014 og rekur rúmlega 1.100 íbúðir sem eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Selfossi, Akranesi og víðar um land. Hlutverk félagsins er að fjárfesta í, reka og annast útleigu á íbúðarhúsnæði til einstaklinga. Hjá Ölmu starfa 18 starfsmenn í fullu starfi, auk fjölda verktaka víðs vegar um landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK