Sýn tapaði 405 milljónum í fyrra

Höfuðstöðvar Sýnar.
Höfuðstöðvar Sýnar. mbl.is/Hari

Tap Sýnar hf. nam 405 milljónum króna í fyrra samanborið við 1.748 milljóna króna tap árið á undan. 

Ársreikningur samstæðu Sýnar var samþykktur á stjórnarfundi í gær. Rekstrarhagnaður (EBITDA) Sýnar nam 5.739 milljónum króna í fyrra samanborið við 5.509 milljónir árið 2019. EBITDA-hlutfallið er 27,6% á árinu 2020 samanborið við 27,8% á árinu 2019. 

„Heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif á reksturinn á árinu. Ef við leiðréttum fyrir því er ljóst að árangur af nýrri stefnu hefði skilað okkur hagnaði á árinu 2020. Við höfum unnið hart að því að framfylgja þeirri stefnu sem við settum okkur á árinu 2019, að rækta langtímaviðskiptasamband við okkar viðskiptavini sem byggir á virðingu og trausti. Í maí settum við herferð í loftið sem bar heitið Nýtt upphaf. Hluti af þessu verkefni var að tryggja að allir okkar viðskiptavinir væru í réttum þjónustuleiðum.

Skemmst er að segja frá því að í lok árs höfðu þjónustuleiðir 25.000 heimila verið yfirfarnar. Verkefnið hlaut frábærar viðtökur hjá viðskiptavinum okkar, sem birtist meðal annars í aukinni ánægju í mælingum okkar, þeim hæstu í sögu fyrirtækisins, en einnig í Ánægjuvoginni fyrir árið 2020. Þessi aðgerð leiðir til lækkunar á tekjum til skemmri tíma en við trúum því að til lengri tíma skili þetta okkur betri árangri. Við ætlum okkur auðvitað að geta mætt óvæntum ytri áföllum og erum í því augnamiði að straumlínulaga reksturinn enn frekar,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, í fréttatilkynningu.

Í tilkynningu segir að með breytingum á vöruframboði hafi tekist að fjölga viðskiptavinum Stöðvar 2. Þeim fjölgaði um 14% á árinu 2020. 

Handbært fé frá rekstri ársins 2020 var 5.912 m.kr sem er 10% hækkun frá fyrra ári. Fjárfestingahreyfingar námu 3.516 m.kr. Fjármögnunarhreyfingar félagsins námu 2.238 m.kr árið 2020. Handbært fé í lok fjórða ársfjórðungs nam 831 m.kr sem er hækkun um 197 m.kr samanborið við árið 2019.

Eigið fé í lok tímabilsins nam 8.549 m.kr og eiginfjárhlutfall var 27,8%. Útgefið hlutafé í lok tímabilsins nam 2.964 m.kr.

Fastafjármunir lækka um 1.345 m.kr á milli ára. Ástæður þeirrar lækkunar eru minni fjárfestingar á árinu 2020 samanborið við árið á undan. Lækkun í fjárfestingum snýr að mestu að lægri fjárfestingum í varanlegum rekstrarfjármunum.

Á árinu 2019 var talsverð endurnýjun á ljósvakabúnaði, nýju stúdíói undir fjölmiðlastarfsemi félagsins og frágangi á nýjum höfuðstöðvum félagsins. Aðrar ástæður lækkunar fastafjármuna eru að hluti leigueigna er nú flokkaður sem eignir til sölu í samræmi við kröfur IFRS 5 eða tæplega 540 m.kr. Flokkunin skýrist af þeim samningaviðræðum sem félagið er í um sölu á óvirkum farsímainnviðum. Heildarskuldir félagsins voru 22.313 m.kr í lok ársins 2020. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 15.419 m.kr í lok fjórðungsins. Veltufjárhlutfall var 1,08.

Samstæðureikningur Sýnar

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK