Facebook þarf að punga út 83 milljörðum

Facebook hefur látið af háttseminni nema fá samþykki notenda fyrst.
Facebook hefur látið af háttseminni nema fá samþykki notenda fyrst. AFP

Dómari við alríkisdómstól í Bandaríkjunum hefur samþykkt sáttagerð í hópmálsókn 1,6 milljóna notenda Facebook í Illinois-ríki gegn tæknirisanum. Facebook samþykkti að greiða 650 milljónir Bandaríkjadala, sem nemur um 83 milljörðum króna.

Jay Edelson, lögfræðingur í Chicago í Illinois, stefndi Facebook árið 2015 fyrir að hafa á ólögmætan hátt safnað lífkennagögnum um notendur til að bera kennsl á andlit þeirra. Edelson taldi að háttsemin væri brot á persónuverndarlögum í Illinois-ríki. Málið varð svo að hópmálsókn árið 2018.

Í janúar árið 2020 samþykkti Facebook að greiða 550 milljónir dala eftir að tilraunir fyrirtækisins til að fá málinu vísað frá dómi báru ekki árangur. Dómarinn, James Donato, sem var með málið hafnaði þeirri sátt og taldi að fyrirtækið væri að sleppa of auðveldlega, bæturnar fyrir persónuverndarbrotin væru ekki nægilega háar.

Við málsmeðferðina kom í ljós að Facebook var ítrekað að brjóta persónuverndarlög með því að geyma lífkennagögn, m.a. upplýsingar um andlitsdrætti notenda, sem notuð voru til að merkja fólk á myndum. Þetta var hins vegar gert án leyfis notenda. Árið 2019 hætti fyrirtækið að geyma slík gögn án samþykkis.

Á föstudaginn sl., 26. febrúar, náðu aðilar niðurstöðu í málinu sem dómarinn var tilbúinn að samþykkja. Þeir sem áttu aðild að hópmálsókninni munu að minnsta kosti fá 345 Bandaríkjadali hver.

Talið er að sáttin geti haft mikið fordæmisgildi varðandi persónuvernd notenda samfélagsmiðla. Facebook hefur ekki tjáð sig um dómsáttina.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK