Landsvirkjun og Norðurál birta orkusamninga

mbl.is/Jón Pétur

Norðurál og Landsvirkjun hafa aflétt trúnaði af raforkusamningum fyrirtækjanna. Vonast er til að birtingin styðji við og auki upplýsta umræðu um orkumál á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem trúnaði er aflétt af hálfu Landsvirkjunar. Norðurál tekur nú annað skref sitt í opinberun langtímasamninga, en nýverið birti fyrirtækið raforkusamning sinn við Orkuveitu Reykjavíkur, í samræmi við samkomulag fyrirtækjanna tveggja, að því er Landsvirkjun greinir frá í tilkynningu. 

Þar kemur fram, að Norðurál sé þriðji stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar, en Landsvirkjun selur fyrirtækinu um þriðjung þeirrar raforku sem álverið notar.

Ljósmynd/mbl.is

„Fyrirtækin hafa átt í farsælu samstarfi í meira en 20 ár, eða allt frá stofnun álversins árið 1997. Síðan þá hefur álverið stækkað og aukið orkukaup sín frá Landsvirkjun. Norðurál kaupir einnig raforku frá fleiri orkusölum á Íslandi. Landsvirkjun selur raforku til Norðuráls samkvæmt tveimur langtímasamningum, auk sölu til skamms tíma eftir atvikum. Langtímasamningarnir eru tengdir markaðsverði,“ segir í tilkynningunni. 

Upphaflega tengt álverði en er nú tengt orkuverði Nord Pool

„Samningur 1 kveður á um 161 MW eða 1410 GWst á ári og á rætur að rekja til ársins 1997, þótt þá hafi hann verið minni. Raforkuverðið var upphaflega tengt álverði, en frá 1. nóvember 2019 hefur það verið tengt orkuverði á Nord Pool-raforkumarkaði Norðurlandanna. Samningurinn gildir til ársloka 2023.

Samningur 2 er mun minni. Hann kveður á um 25 MW eða 212 GWst á ári og var gerður árið 2009 í tengslum við stækkun álversins. Samningurinn er tengdur álverði og gildir út október 2029,“ segir enn fremur. 

 Bæði Landsvirkjun og Norðurál birta samningana í heild á heimasíðum sínum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK