Vöruskiptin óhagstæð um 12 milljarða

Fluttar voru út vörur fyrir 52,6 milljarða króna í febrúar 2020 og inn fyrir 64,5 milljarð cif (59,5 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í febrúar, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um tæpa 12 milljarða króna.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin reiknuð á fob/cif-verðmæti óhagstæð um 9,3 milljarða króna í febrúar 2020 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruviðskiptajöfnuðurinn í febrúar 2021 var því 2,7 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruviðskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 149,5 milljarða króna sem er 38,9 milljörðum hagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 14,6%

Verðmæti vöruútflutnings í febrúar 2021 jókst um 6,5 milljarða króna, eða um 14,0%, frá febrúar 2020, úr 46,1 milljarði króna í 52,6 milljarða. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 4,7 milljarða króna, eða 22,1% samanborið við febrúar 2020, og útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um 1,7 milljarða (8,4%).

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá mars 2020 til febrúar 2021, var 629,6 milljarðar króna og hækkaði um 16,0 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 2,6% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 49% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði og var verðmæti þeirra 1,5% meira en á tólf mánaða tímabili þar á undan. Sjávarafurðir voru 43% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 5,3% á milli tólf mánaða tímabila. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 14,6% á sama tímabili.

Mestu munar um samdrátt í innflutningi á eldsneyti

Verðmæti vöruinnflutnings nam 64,5 milljörðum króna í febrúar 2021 samanborið við 55,4 milljarða í febrúar 2020. Verðmæti skipainnflutnings nam 1,3 milljörðum króna í febrúar 2021 en var óverulegt fyrir ári. Verðmæti fjárfestingavara utan flutningstækja jókst um 33,0% samanborið við febrúar 2020.

Verðmæti vöruinnflutnings síðustu tólf mánuði var 779,1 milljarður króna og lækkaði um 22,9 milljarða miðað við tólf mánuði þar á undan eða 2,9% á gengi hvors árs fyrir sig. Mestu munar um samdrátt í innflutningi á eldsneyti.

Vert er að hafa í huga að hér er um bráðabirgðatölur að ræða. Niðurstöður gætu breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar einkum í innflutningi með viðbótargögnum frá Skattinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK