„Jákvætt og nauðsynlegt skref“

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka gild bólusetningarvottorð og mótefnamælingavottorð frá farþegum utan Schengen-svæðisins skipti mjög miklu máli fyrir fyrirtækið og íslenska ferðaþjónustu í heild. „Það bætir stöðuna mjög að vottorð um bólusetningar frá þessum löndum séu tekin gild. Þetta er því mjög jákvætt og nauðsynlegt skref,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Spurður hvort fyrirtækið sjái strax áhrif af þessum fréttum á fyrirspurnir og jafnvel bókanir segir Bogi að enn sé of snemmt að greina áhrifin. „Það er of skammt liðið svo við getum sagt til um einhverjar breytingar út af þessu,“ segir hann. Bogi tekur hins vegar fram að félagið hafi að undanförnu verið með herferð í gangi bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum til að halda sýnileika og geta farið fljótt af stað aftur.

Finna fyrir talsverðri eftirspurn

Sú vinna og áhugi á Íslandi hafi skilað árangri. „Við finnum fyrir talsverðri eftirspurn að koma hingað til lands og vonandi stuðlar þetta [nýja reglugerðin] að því að flugáætlun okkar raungerist að mestu, þótt óvissan sé enn mikil,“ segir Bogi.

Nokkuð hefur borið á því að Íslendingar ætli að skella sér til sólarlanda yfir páskana og í erlendum miðlum hafa verið færðar fréttir af því að ferðaskrifstofur hafi fjölgað mikið ferðum sínum til áfangastaða eins og Mallorca. Spurður út í bókanir Íslendinga um páskana segir Bogi ljóst að „ágætis eftirspurn sé í sólina“.

Aðstæður erlendis helsti áhrifavaldurinn

Áætlun ríkisstjórnarinnar gengur í dag út á að 43 þúsund verði bólusettir hér fyrir lok mars og að allir sem vilji fá bólusetningu yfir 15 ára aldri verði bólusettir fyrir lok júlímánaðar. Bogi segir þessa áætlun ganga ágætlega saman við áform Icelandair, en að viðbúið sé að alls konar aðlögun muni þurfa á komandi misserum til að svo verði.

Bogi segir litakóðunarkerfið, sem taka á í notkun 1. maí, vera mjög mikilvægt skref fyrir flugfélagið og ferðaþjónustuna almennt á Íslandi. Þegar kerfið tekur gildi munu aðstæður erlendis, í viðkomandi löndum, frekar en aðstæður á Íslandi skipta meira máli um það hvernig mál þróist hér í ferðaþjónustu í sumar og haust. Ferðamenn frá löndum þar sem staðan sé góð muni eiga hægara um vik að koma til landsins en þar sem staðan sé slæm.

Ísrael ekki á dagskránni

Bólusetningar eru enn nokkuð skammt á veg komnar í flestum ríkjum heims, en á sama tíma hefur Ísrael bólusett mikinn meirihluta þegna sinna. Kæmi til greina fyrir Icelandair að hefja flug þangað meðan beðið er eftir aukinni bólusetningu t.d. í Evrópu? Bogi segir að slíkt flug hafi verið skoðað, auk fjölda annarra tækifæra. Hingað til hafi það þó ekki þótt skynsamlegt. „Það liggur ekki fyrir ákvörðun hjá okkur að hefja flug þangað. Sá markaður er of lítill til að standa undir flugi til og frá Íslandi á meðan tengiflug til Norður-Ameríku er ekki fyrir hendi. Við höfum því ekki séð það sem vænlegan kost, þótt bólusetningar gangi vel þar,“ segir Bogi. Á móti hefur félagið ákveðið að bæta Portland og Barcelona aftur í leiðarkerfið í sumar og hefja flug til Orlando fyrr en áætlað var.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK