„Gengið mun betur heldur en við höfðum gert ráð fyrir“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góður árangur í samhæfðum aðgerðum í ríkisfjármálum og hjá Seðlabanka Íslands átti þátt í því að samdrátturinn í efnahagskerfinu varð minni á síðasta ári heldur en menn höfðu gert ráð fyrir. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á blaðamannafundi í kjölfar þess að peningastefnunefnd SÍ ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum. 

„Þegar við vorum hér fyrir ári síðan, þá leit þetta út fyrir að það væri í rauninni alveg gríðarlegur samdráttur á leiðinni. Þannig að við settum töluvert mikið af stað á þeim tíma, bæði að lækka vexti og setja lausafé út í kerfið,“ sagði Ásgeir. 

„Að einhverju leyti hefur þetta gengið mun betur heldur en við höfðum gert ráð fyrir. Við höfum náð miklu meiri hvatningu fram í kerfinu heldur en við höfðum búist við. Við höfum náð að einhverju leyti að mæta samdrætti í ferðaþjónustu með því að hvetja áfram aðrar greinar. Og það er í sjálfu sér mjög jákvætt. Við höfum þó fengið aðeins meiri verðbólgu heldur en við kannski höfum búist við,“ sagði Ásgeir ennfremur. 

Ákveðin tilraun í gangi

Hann benti jafnframt á að það sé ákveðin tilraun í gangi, því peningalegum hvata hafi aldrei verið beitt á Íslandi áður til að fara á móti samdrætti. Áður fyrr hafi gengið einfaldlega fallið, raunlaun lækkað, síðan hafi komið snöggur samdráttur en svo hafi kerfið rétt sig við. 

„Núna höfum við verið að beita peningalegum hvata og haldið genginu stöðugu. Þannig að það er að einhverju leyti ný reynsla. Við þurfum að sjá hvernig þetta gerist. Þetta er ákveðið einstigi sem þarf að gera; við erum að sjá að það er ennþá tiltölulega mikill slaki í kerfinu, það er tiltölulega mikið atvinnuleysi. Á sama tíma erum við líka að sjá ákveðnar greinar í hagkerfinu þar sem er kannski þensla, en það er alveg töluverður vöxtur. Þannig að við þurfum aðeins að fara bil beggja. Og eins er það náttúrulega að við þurfum að huga að ríkisfjármálastefnunni. Síðasta ár gekk mjög vel, það er að segja hjá okkur saman, ríkisfjármálum og Seðlabanka, það þurfti á miklum hvata að halda þar. Við vitum ekki nákvæmlega t.d. hvort við náum sumrinu inn í ferðaþjónustu eða ekki. Það held ég að muni skipta mjög miklu máli fyrir þetta ár. Þannig að við verðum að einhverju leyti að spila þetta áfram. En þegar kemur lengra fram þá náttúrulega þurfum við aðeins að hugsa um ríkisfjármálastefnuna,“ sagði Ásgeir. 

Hann bætti við að almennt séð ætti ríkisfjármálastefnan að einblína á að jafna áfallið á þegna landsins og með ríkisútgjöldum að mæta áfallinu að einhverju leyti þannig að allir verði skattlagðir til að bæta þeim sem urðu fyrir skaða. Einnig verði að huga að almennri fjárfestingu. En það sé peningastefnunnar að einhverju leyti að skapa hvata til hagvaxtar. 

Efnahagsbati byrjaður

„Ef að ríkisfjármálastefnan verður útþenslusöm áfram, og jafnvel eftir að kófið er búið, þá er það alveg viðbúið að við verðum að draga okkur til baka. Það geta ekki báðir aðilar verið á bensíngjöfinni á sama tíma.“

Ásgeir tók fram að vel verði fylgst með stöðu mála áfram og hver verðbólguþróunin verði. „Við gerum ráð fyrir að hún sé að fara hjaðna fremur hratt. Ef það gerist ekki þá verðum við að bregðast við. En við erum samt að sjá að það er í raun efnahagsbati byrjaður, þó að landið sé lokað. Og það er töluverð breyting frá því sem var í fyrra, sem er í sjálfu sér mjög jákvætt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK