Róbert: Ásakanir gerðar í fjárhagslegum tilgangi

Róbert Wessman.
Róbert Wessman.

Róbert Wessman hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar fréttaflutnings Morgunblaðsins í morgun, þar sem Halldór Kristmannsson, einn nánasti samstarfsmaður Róberts til 18 ára, bar Róbert þungum sökum, meðal annars að hafa sent tveimur fyrrverandi samstarfsfélögum sínum morðhótanir og að hafa kýlt Halldór.

Róbert segir í yfirlýsingunni að ljóst sé af bréfsendingum lögmanns Halldórs, Quinn Emanuel, að ásakanir Halldórs séu gerðar í fjárhagslegum tilgangi, „enda koma þar fram kröfur um greiðslur til handa honum,“ segir í tilkynningunni.

Ítrekar Róbert að fengin hafi verið óháð alþjóðleg lögmannsstofa til að fara ofan í saumana á kvörtunum Halldórs. Ítrekar hann þar með yfirlýsingu stjórnar Alvogen frá því í síðustu viku. Segir Róbert jafnframt að önnur óháð lögmannsstofa hafi verið fengin til að fara yfir ferli skoðunar fyrri lögmannsstofunnar.

Halldór hefur hins vegar sagt við Morgunblaðið og í yfirlýsingu að hann hafi ekki gert fjárkröfu á fyrirtækið.

„Fyrir mig eru þessar ásakanir mjög mikil vonbrigði enda vegið að mínum starfsheiðri og persónu. Mér þykir mjög miður að samstarfi okkar Halldórs til 18 ára hafi lokið með þessum hætti,“ segir að lokum í tilkynningunni.

Í bréfi lögmanna Halldórs til Alvogen sem mbl.is hefur undir höndum og sent var 15. mars má sjá að Halldór hyggist ekki sækja bætur á Alvogen ef fyrirtækið muni innan sjö daga losa sig við Róbert sem forstjóra og staðfesta að Halldór muni halda áfram störfum sínum fyrir fyrirtækið. Halldór tekur hins vegar fram í bréfinu að hann muni ekki fyrirgera rétti sínum til að sækja bætur úr hendi Róberts sjálfs.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK