Síðasta sending þegar komin til landsins

Bæði Cocoa Puffs og Lucky Charms hafa átt fastan sess …
Bæði Cocoa Puffs og Lucky Charms hafa átt fastan sess á heimilum landsmanna um áratuga skeið. Ljósmynd/Aðsend

„Við fengum þetta nýlega formlega staðfest,“ segir Lísa Björk Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Nathan & Olsen, um þá stöðu að vörunar Cocoa Puffs og Lucky Charms séu ekki lengur í boði fyrir íslenskan markað.

Lísa segir að síðasta sending hafi borist í mars og þeir pakkar hafi verið framleiddir fyrir mörgum mánuðum. Síðan þá hafi uppskriftin breyst og náttúrulegu litarefni bætt við hana sem ekki samræmist Evrópulöggjöf sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Því verður ekki hægt að flytja vörurnar inn lengur og síðasta sendingin hefur þegar borist til landsins.

Cocoa Puffs og Lucky Charms er framleitt af fyrirtækinu General Mills og hefur ekki verið í boði í Evrópu heldur verið sérpakkað fyrir íslenskan markað í fjölda ára. Lísa er ekki bjartsýn á að það verði hægt að framleiða sérstaklega eftir gömlu uppskriftinni fyrir íslenska markaðinn enda bæði flókið og dýrt.

„Þetta er voða leiðinlegt fyrir okkur og íslenska neytendur. Þetta er búið að vera í boði á landinu í tugi ára. Meðan þessi nýja uppskrift er framleidd þá er lítið hægt að gera. Þetta kemur ekki aftur nema þetta breytist – það er ekkert fyrirsjáanlegt í þeim efnum eins og staðan er núna,“ segir Lísa í samtali við mbl.is.

Nathan & Olsen vonast til að geta skaffað nýjar vörur frá framleiðandanum sem uppfylla Evrópulöggjöf og geti að einhverju leyti komið í stað varanna vinsælu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK