Hærri tekjur og meiri eignir

Byggingaframkvæmdir. Af skattframtölum einstaklinga að dæma ríkti hagsæld í landinu …
Byggingaframkvæmdir. Af skattframtölum einstaklinga að dæma ríkti hagsæld í landinu árið 2019, fólki fjölgaði og tekjur og eignir jukust, segir í Tíund. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tekjur og eignir landsmanna jukust á hagsældarárinu 2019 og útlendingar héldu áfram að flykkjast til landsins í leit að vinnu. Nær einn af hverjum fimm framteljendum á skattgrunnskrá Skattsins var með erlent ríkisfang. Þetta kemur fram í ítarlegri yfirlitsgrein Páls Kolbeins rekstrarhagfræðings í Tíund, blaði Ríkisskattstjóra um álagningu einstaklinga 2020 og skattframtöl vegna tekna ársins á undan.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr hröðum tekjuvexti meðal landsmanna á árinu 2019 voru laun, hlunnindi, lífeyristekjur og aðrar tekjur engu að síður hærri en nokkurn tímann fyrr. Frá 2010, þegar landið var á botni seinustu kreppu, til ársins 2019 hækkuðu tekjur landsmanna um rúma 654 milljarða eða 55,5% og þá voru tekjurnar 411 milljörðum kr. hærri en á toppi síðasta góðæris árið 2007 að því er fram kemur í grein Páls. Tekjurnar jukust 2019 um 63,3 milljarða en aðeins um helmingur tekjuaukans var þó vegna launa. Greiðslur úr lífeyrissjóðum jukust um 19,2% og tryggingabætur um 16,4%.

Grafík/mbl.is

Í greininni er fjallað ítarlega um tekjudreifingu og skattbyrði sem er mjög mismunandi milli hópa. Kemur t.a.m. í ljós að ef öllum einstaklingum á skattgrunnskrá er skipt í tíu jafnstóra hópa á tekjustiga eftir heildartekjum er umtalsverður munur á tekjum kynjanna og einnig eru yngstu og elstu aldurshóparnir áberandi í neðstu hópum tekjustigans. 44,8% karla voru í neðri helmingi tekjustigans en 55,5% kvenna. 11,9% kvenna og 8,3% karla voru með árstekjur á bilinu 3.638 þúsund til 4.393 þúsund kr. Karlar voru hins vegar 70,6% þeirra sem höfðu meira en 11.449.000 kr. í tekjur á árinu. Alls voru 3.133 framteljendur með meira en 25,8 milljónir í tekjur á árinu 2019, þar af voru 2.424 karlar en 709 konur.

Meðaltekjur eru hæstar meðal fólks á aldrinum 46 til 55 ára og hátt í fimmtungur í þessum aldurshópi var með meira en 11.449.000 kr. í tekjur á árinu. Þegar sjónum er beint að skattbyrði einstaklinga kemur m.a. í ljós að þau tíu prósent framteljenda sem voru með hæstu tekjurnar meðal landsmanna höfðu 571 milljarð í tekjur og greiddu 159 milljarða í skatt. Tíu prósent framteljenda voru því með 29,1% allra tekna og greiddu 35,2% skattanna. Fimm prósent framteljenda eða 15.665 manns höfðu meira en 14.568.000 kr. í tekjur eða samtals 371 milljarð og greiddu 103 milljarða í skatta. „Það er athyglisvert að tekjuhæstu fimm prósenta framteljenda voru með um 15,9% heildarlauna, hlunninda og lífeyris í landinu eða rétt um þrisvar sinnum meira en ef um algerlega jafna tekjudreifingu væri að ræða. Öðru máli gegnir hins vegar um fjármagnstekjurnar en 61,3% fjármagnstekna komu í hlut þessa tekjuhæsta hluta framteljenda,“ segir í greininni.

Ef öllum einstaklingum á skattgrunnskrá er skipt í tíu jafnstóra …
Ef öllum einstaklingum á skattgrunnskrá er skipt í tíu jafnstóra hópa á tekjustiga eftir heildartekjum er umtalsverður munur á tekjum kynjanna og einnig eru yngstu og elstu aldurshóparnir áberandi í neðstu hópum tekjustigans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármagnstekjur voru 40,1% af tekjum tekjuhæsta eina prósents framteljenda en ekki nema 6,6% tekna allra landsmanna á árinu 2019. Tvö prósent framteljenda voru með ríflega helming allra fjármagnstekna landsmanna á árinu.

Heildareignir landsmanna jukust um rúma 444 milljarða á árinu 2019 en hækkun eigna má að mestu rekja til hækkunar fasteignamats. Eignir hafa aukist mun hraðar en skuldirnar á síðustu árum en skuldir jukust um 117,6 milljarða og eigið fé landsmanna jókst alls á árinu um tæpa 327 milljarða kr. Fram kemur að á fimm árum eða frá 2014 hefur eigið fé landsmanna aukist um 2.249 milljarða eða 82,1%. Bróðurpartur eignaaukningarinnar var vegna hækkunar á fasteignaverði.

Þá vekur athygli að tæpur þriðjungur eigna landsmanna var í skuld í árslok 2019 og bendir Páll á að skuldir hafi ekki verið lægri samanborið við eignir frá 1992 eða í 28 ár

33 þúsund áttu skuldlausa eign

233 fengu 16,2 milljarða í arðstekjur Alls áttu 109.364 fjölskyldur fasteign í lok ársins 2019. 76.461 fjölskylda skuldaði íbúðarlán og má því ætla að um 32.903 fjölskyldur hafi átt skuldlausar fasteignir. Þetta hlutfall hefur ekki verið svona hátt frá árinu 1997, að því er kemur fram í Tíund. Fjölskyldum sem áttu íbúðarhúsnæði fjölgaði um rúmlega þrjú þúsund á árinu en til samanburðar fjölgaði fasteignaeigendum um 769 árið 2014.

983 fjölskyldur áttu fasteignir í útlöndum og hefur verðmæti erlendra fasteigna umreiknað í krónur aukist um 17,7 milljarða frá 2014.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr hröðum tekjuvexti meðal landsmanna …
Þrátt fyrir að dregið hafi úr hröðum tekjuvexti meðal landsmanna á árinu 2019 voru laun, hlunnindi, lífeyristekjur og aðrar tekjur engu að síður hærri en nokkurn tímann fyrr. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 56 þúsund fjölskyldur töldu fram hlutabréf á árinu 2019 og 23.388 einstaklingar fengu greiddan arð af hlutabréfum eða samtals rúma 48 milljarða kr. Helmingur þeirra var með innan við 30 þúsund kr. í arð en 2.338 framteljendur eða tíu prósent þeirra sem fengu greiddan arð fengu meira en 4.875 þúsund kr. Af þessum hópi var helmingurinn eða 1.169 framteljendur með meira en 9.423 þús. kr. í arð og samtals um 30,6 milljarða. Eitt prósent hluthafanna eða 233 einstaklingar fengu svo meira en 31,5 milljónir í arðstekjur á árinu 2019. Samanlagðar tekjur þeirra voru 16,2 milljarðar. Samantekið segir í Tíund að þrjú prósent þeirra framteljenda sem fengu mestan arð greiddan voru með ríflega helming alls þess arðs sem fyrirtæki greiddu eigendum sínum á árinu 2019.

Innstæður landsmanna í bönkum jukust um 42 milljarða milli ára og voru tæpir 827 milljarðar í lok árs 2019. Þá áttu 5.632 fjölskyldur sem samsvarar 24 milljörðum kr. á erlendum bankareikningum í lok þess árs. Börn áttu 20,6 milljarða á bankareikningum í árslok 2019 en alls áttu 37.673 börn peninga í banka og fengu þau 266 milljónir í vexti.

Bent er á að frá hruni og fram til ársins 2013 minnkuðu bankainnstæður landsmanna um 378 milljarða þegar þær fóru að vaxa á ný. Þar af minnkuðu innstæður barna um 5,1 milljarð.

Enn eiga einstaklingar 151,6 milljörðum minna á bankareikningum en þeir áttu í árslok 2008.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK