Betri afkoma en búist var við

mbl.is

Tölur um afkomu bæði Kópavogsbæjar og Hafnarfjarðarbæjar á síðasta ári liggja nú fyrir en bæjarfélögin hafa birt ársreikninga fyrir árið 2020. Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar var 325 milljónir kr. á seinasta ári og er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra í tilkynningu að afkoman sé miklu betri en búast mátti við eftir að faraldur kórónuverunnar skall á.

Í Hafnarfirði var rekstrarafgangur fyrir A- og B-hluta bæjarsjóðs í fyrra 2.264 milljónir kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir 307 milljóna króna halla. Er mismunurinn að stórum hluta rakinn til sölu á liðlega 15% hlut bæjarins í HS Veitum hf. í fyrra og lóðasölu en hagnaðurinn af sölunni í HS Veitum nam 2.553 milljónum kr. Í tilkynningu bæjarins um útkomuna kemur fram að þrátt fyrir neikvæð áhrif af völdum veirufaraldursins hafi grunnrekstur bæjarsjóðs verið traustur.

Haft er eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra að Hafnarfjörður hafi mætt neikvæðum áhrifum faraldursins með því að styrkja efnahagslegar undirstöður sveitarfélagsins. Skuldaviðmið bæjarsjóðs hafi farið stöðugt lækkandi og eftir söluna á hlutnum í HS Veitum hafi það aldrei verið lægra. Nú sé hægt að snúa vörn í sókn. Fram kemur að greiðslur langtímaskulda námu alls um 3,2 milljörðum króna í fyrra en tekin voru ný lán á árinu fyrir um 3,8 milljarða kr. Skuldaviðmiðið hafði lækkað í 101% um seinustu áramót en var 112% í árslok 2019.

Skuldir Kópavogsbæjar við lánastofnanir lækkuðu að raungildi í fyrra að teknu tilliti til verðbólgu. „Hins vegar komu inn aðrir þættir eins og hækkun lífeyrisskuldbindinga og dómur í Vatnsendamáli, sem féll 23. desember síðastliðinn. Dómurinn leiðir til hækkunar heildarskulda og þar með til hækkunar skuldaviðmiðs úr 102% í 105% en viðmið samkvæmt lögum er 150%,“ segir í tilkynningu.

Meðal stærstu verkefna á vegum Kópavogsbæjar eru bygging þjónustuíbúða í Fossvogsbrún sem ætlað er að ljúka 2021, lok framkvæmda við húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs, endurnýjun íþróttahúss í Digranesi og undirbúningur nýs Kársnesskóla. Meðal helstu framkvæmda í Hafnarfirði voru bygging nýs skóla í Skarðshlíð, endurgerð Sólvangs, framkvæmdir við vatns- og fráveitu, gatnagerð og hafnarmannvirki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK