„Ekki öll kurl komin til grafar enn þá“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samtals voru 12% lána í ferðaþjónustu í lok febrúar í vanskilum og 42% í frystingu. Þrátt fyrir sterka stöðu stóru bankanna og batnandi afkomu, þá gæti greiðsluvandi hjá stórum hluta greinarinnar breyst í skuldavanda, en endurskipulagning á stórum hluta skulda í greininni á eftir að fara fram. Þetta var meðal þess sem kom fram á kynningarfundi vegna útgáfu á ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabanki Íslands gefur út.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundinum að framundan væru afskriftir hjá bönkunum „Það eru ekki öll kurl komin til grafar enn þá. Má búast við að bankarnir þurfi að afskrifa einhver lán eða endurskipuleggja þau í miklu meiri mæli þegar líður á þetta ár þegar liggur fyrir hver óvissan er.“

Ferðaþjónustan með 10% af heildarútlánum

Hann tók þó fram að afkoma bankanna hefði verið tiltölulega góð, en hagnaður þeirra hækkaði um tvo milljarða í fyrra frá fyrra ári, á sama tíma og virðisrýrnun þeirra var tæplega 26 milljarðar, sem var 17 milljörðum hærra en árið áður.

Samtals nema útlán tengd ferðaþjónustu um 10% af heildarútlánum stóru bankanna, en þar eru útgjöld vegna hótela og gistiþjónustu stærsti liðurinn. Var útlánavöxtur til ferðaþjónustunnar um 11% á síðasta ári, en þar koma meðal annars til ný lán með ríkisábyrgð auk þess sem lán í erlendri mynt hækkuðu talsvert með veikingu krónunnar. Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, sagði á fundinum að vegna stöðunnar væru mörg fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustunni orðin mjög skuldsett.

„Fjarmálakerfið er að koma tiltölulega vel út úr þessu – enn þá“

Sagði Ásgeir að þær aðgerðir sem gripið var til í peningamálum síðasta vor með meðal annars vaxtalækkunum hafi unnið mikið með fjármálastöðugleikanum. „Erum að sjá afkomu bankanna tiltölulega góða, sem stafar af því að vaxtalækkanir hafa stutt við fjárhag heimilanna  sem og fyrirtækja. Höfum líka séð aðgerðir ríkisins. Fjarmálakerfið er að koma tiltölulega vel út úr þessu – enn þá,“ sagði hann.

Haukur fór á fundinum yfir stöðuna og benti hann á að í heild væru 4,4% fyrirtækjalána í vanskilum og að frysting í lok febrúar hefði aukist úr 3,5% upp í 17%. Það væri að langmestu leyti vegna ferðaþjónustunnar og annarrar þjónustustarfsemi.Sagði hann að viðbúið væri að atvinnuleysi væri viðvarandi meðan áhrifa farsóttarinnar gætti.

Skuldir byggingargeirans lækka mikið

Á hinum endanum er aftur á móti byggingargeirinn, en þar hefur var í fyrra metár í nýbyggingum sem komu á markað og hefur sala verið mjög góð bæði í fyrra og í ár. Hins vegar hefur orðið samdráttur í nýbyggingum í byggingu og sagði Haukur að skuldir byggingargeirans hefðu dregist saman um 15% í lok janúar miðað við sama tíma í fyrra. Væri það vegna þessarar góðu sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK