Vill takmarka starfsemi erlendra hópbíla við 10 daga

Aðeins verður heimilt samkvæmt lagafrumvarpinu að erlendar hópbifreiðar komi hingað …
Aðeins verður heimilt samkvæmt lagafrumvarpinu að erlendar hópbifreiðar komi hingað í tíu daga í hverjum dagatalsmánuði í senn. mbl.is/RAX

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi þar sem tímabundnir gestaflutningar eru skilgreindir nánar í lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Vill Sigurður Ingi að miðað verði við tíu daga í hverjum almanaksmánuði. Þetta þýðir að erlend hópbifreiðafyrirtæki sem hafa starfað hér á landi á erlendum bílum og með erlenda bílstjóra geta ekki verið með bílana lengur en 10 daga hér á landi. Er þetta að sögn Sigurðar gert til að mæta „ógn af erlendri starfsemi hópbifreiða hér á landi.“

Þar sem engin nánari skilgreining hefur verið á tímabundnum gestaflutningum, það er hversu lengi „tímabundið“ er í lögunum, þá hafa erlend hópbifreiðafyrirtæki getað komið hingað til lands og stundað rekstur sinn í lengri tíma og án erfitt hefur verið að hafa eftirlit með hvort í raun sé um tímabundna flutninga að ræða og að bregðast við.

Sigurður Ingi segir í færslu á Facebook að leiða megi líkur að því að launakjör og önnur réttindi starfsmanna séu með öðrum hætti en hér á landi og að umfangsmikil starfsemi sem þessi hér á landi skaði samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. „Til að slík starfsemi verði ekki hömlulaus þá mælti ég fyrir frumvarpi í gær sem takmarkar starfsemina við 10 daga í hverjum mánuði,“ segir Sigurður Ingi.

Fram kom í framsögu Sigurðar Inga að skilgreiningin væri efnislega í samræmi við skilgreiningu Evrópureglna. Í greinargerð með frumvarpinu segir um tímalengdina: „Þau mörk sem hér eru lögð til, þ.e. tíu samfelldir dagar í hverjum almanaksmánuði, eru það rúm að þau eiga að nægja til ferða með hópa ferðamanna um landið en um leið ekki það rúm að þeir flutningar geti ekki lengur talist tímabundnir.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK