Hefur enga þýðingu fyrir stjórn VR

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

„Ég veit eiginlega ekki hvað Fjármálaeftirlit Seðlabankans er að fara,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en eftirlitið gagnrýnir hvernig stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LIVE) hagaði ákvörðun um að fjárfesta ekki í hlutafjárútboði Icelandair Group í september.

Sá hluti stjórnar er skipaður er úr VR greiddi atkvæði gegn því að sjóðurinn tæki þátt í útboðinu en fulltrúar atvinnurekenda vildu að LIVE tæki þátt í því. Ragnar Þór hafði sjálfur gagnrýnt Icelandair í aðdragandanum og vildi fyrir sína parta ekki að LIVE tæki þátt í útboðinu.

„Þetta hefur enga þýðingu fyrir stjórn VR. Þarna virðast einhver tilmæli til stjórnar lífeyrissjóðsins varðandi vinnubrögð við ákvarðanatöku,“ segir Ragnar Þór.

Seðlabankinn segir að ekki hafi verið gætt að því „með fullnægjandi hætti að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboðinu“.

Seðlabankinn fer því fram á að stjórn lífeyrissjóðsins muni framvegis tryggja að fullnægjandi umræða fari fram á stjórnarfundum um hæfi stjórnarmanna þegar tilefni væri til þess. Þá þurfi stjórnarmönnum að vera tryggður kostur á að koma á framfæri upplýsingum sem varða hæfi þeirra í tengslum við þau mál sem séu til umræðu.

Vísa til ummæla „atvinnulífsmegin“

„Það var margt sagt opinberlega, sérstaklega af hálfu stjórnarmanna hjá SA sem lögðu gríðarlegan þrýsting á stjórnarmenn okkar um að taka þátt í þessari fjárfestingu,“ segir Ragnar Þór. Honum þyki því liggja beint við að Seðlabankinn sé að vísa til ummæla sem féllu hjá stjórnarmönnum „atvinnulífsmegin“.

Hann segir niðurstöðu Seðlabankans engan dóm og hún hafi enga lögfræðilega þýðingu. „Það liggur fyrir að við gerðum ekkert rangt en ekkert bannar stjórnarmönnum VR að hafa skoðanir á mönnum og málefnum. Það hefur enginn verið dæmdur óhæfur sem situr í stjórn lífeyrissjóðsins þannig að fyrir mér ber þetta þess merki að eftirlit Seðlabankans sé að láta líta út eins og það sé að vinna vinnuna sína,“ segir Ragnar og bætir við:

„Mér finnst ótrúlegt að hvað FME er að eltast við miðað við spillinguna í okkar samfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK