Nýr lágpunktur „til að klekkja á mér“

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá …
Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá félaginu. mbl.is/samsett mynd

Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Alvotech, segir í nýrri yfirlýsingu að fyrirtækin hafi bæði ítrekað brotið trúnað við sig og sýnt „fordæmalausa hörku“. Halldór segir að nafni sínu hafi verið lekið í fjölmiðla, honum hafi verið sagt upp störfum og stefnt fyrir utan líkamsræktarstöð World Class og nú síðast hafi viðkvæmum heilsufarsupplýsingum verið lekið til fjölmiðla auk tiltekinna tölvupóstssamskipta Halldórs við Róbert Wessman og Árna Harðarson, er varðaði breskan blaðamann og ásakanir annars háttsetts stjórnanda innan Alvogen. 

Í yfirlýsingunni vísar Halldór til umfjöllunar Kjarnans frá því á fimmtudag þar sem meðal annars var fjallað um tölvupóstssamskipti Halldórs við Róbert og Árna síðasta haust vegna fyrirgrennslanar bresks blaðamanns á ásökunum á hendur Róberti. 

„Blaðamaður að nafni Lukas Mikelionis hafði samband við mig í október 2020, en hann hafði þá rætt við við fjölmarga stjórnendur fyrirtækjanna. Fyrrverandi framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Alvogen og Alvotech segir í tölvupóstssamskiptum á þessum tíma, að umræddur blaðamaður telji sig hafa upplýsingar um ósæmilega hegðun Róberts. Starfsmannastjórinn segir blaðamanninn einnig hafa upplýsingar um fjölmargar sáttir við lykilstjórnendur, sem hafi verið gerðar til að forðast dómsmál. Hann segir jafnframt að ásakanir gagnvart Róbert snúi að ógnandi og ósæmilegri framkomu hans gagnvart samstarfsmönnum,“ segir Halldór. 

Þá segir Halldór að starfsmannastjóri fyrirtækjanna hafi talið að uppruni ásakananna gæti hafa tengst ásökunum lykilstjórnanda í Bandaríkjunum sem hætti skyndilega hjá fyrirtækinu í desember 2019 og lagði nokkrum dögum síðar fram fjárkröfu á hendur Alvogen. 

Segir lögfræðiskrifstofu ítrekað hafa „slökkt elda“ í kringum Róbert 

„Ég ráðfærði mig við Róbert og Árna um hvernig svara skyldi spurningum blaðamanns. Úr varð að lögfræðistofa Alvogen, White & Case, skrifaði harðort bréf sem ég féllst á að áframsenda að ósk Árna. Samskipti mín við Árna og lögmann White & Case sýna að þessi lögmannsstofa er gjarnan kölluð til þegar „slökkva þarf elda“ í kringum Róbert. Við þetta má bæta að ekki þarf að koma neinum á óvart að sama lögmannsstofa var látin framkvæma hina svokölluðu „óháðu rannsókn“ og komst auðvitað að þeirri niðurstöðu að ekkert væri að sjá. Ég tel að slökkviliðið hafi í raun ekki gert neina rannsóknarskýrslu og fullyrðingar fyrirtækjanna um „engar stoðir ... og allir starfsmenn“ sé augljós markleysa,“ segir Halldór, en sú óháða rannsókn sem Halldór vísar til var framkvæmd til athugunar á ásökunum Halldórs á hendur Róberti fyrr í vetur. Í yfirlýsingu sem stjórn Alvogen sendi frá sér vegna þessa sagði að efni kvartana Halldórs ætti sér ekki stoð. 

Halldór segir að gerð hafi verið sátt við fyrrnefndan lykilstjórnanda í ársbyrjun 2020 í gegnum tryggingafélag Alvogen í Bandaríkjunum. Hann hafi rætt þessa sátt við White & Case og boðist til að upplýsa frekar um málið enda hafi hann átt í samskiptum við Róbert og Árna um ásakanirnar, fjárkröfur og að lokum sáttina. Viðkomandi lykilstjórnandi taldi sig hafa stöðu uppljóstrara innan Alvogen og greindi frá því í lögfræðibréfi til Róberts, Árna, starfsmannastjóra Alvogen og forstjóra fyrirtækisins í Bandaríkjunum.

„Það var ljóst að slökkviliðið frá White & Case hafði lítinn áhuga á að ræða þetta mál og þegar ég bauð fram aðstoð var mér neitað um aðgang að vinnugögnum. Ég taldi mikilvægt að fram kæmi að ég væri ekki sá eini sem stigið hefði fram með ásakanir á hendur Róbert. Ég upplýsti White & Case jafnframt um að ég teldi að breski blaðamaðurinn hefði fjárhagssátt við fyrrgreindan stjórnanda undir höndum, og var það sameiginlegt mat mitt og Árna Harðarsonar á þessum tíma. Ábendingar mínar vegna þessa máls til stjórnar Alvogen byggjast á samtölum við æðstu stjórnendur og tölvupóstssamskiptum, sem staðfesta að stjórnandinn kvartaði undan háttsemi Róberts, skjalfesti það með bréfaskriftum og lagði fram háa fjárhagskröfu í  desember 2019. Ég hef lagt fram ábendingar mínar í góðri trú og get ekki sagt til um hvort ásakanir stjórnandans hafi verið réttmætar, heldur einungis staðfest að þær voru lagðar fram og unnið var að úrlausn málsins sem lauk með sátt,“ segir Halldór. 

Heilsufarsupplýsingum lekið til fjölmiðla 

Þá segir Halldór það sérlega ósvífið að „viðkvæmum heilsufarsupplýsingum hafi verið lekið til fjölda fjölmiðla og að nánast sé óþekkt hér á landi að fyrirtæki beiti starfsfólk slíkri hörku“, en í umfjöllun Kjarnans var vísað til veikindavottorðs sem Halldór framvísaði í desember 2020. Í umfjöllun Kjarnans er sagt að Halldór hafi ekki tilgreint ástæður fyrir veikindaleyfinu en vísað til höfuðkúpubrots á árinu 2020. Halldór vísar þessu alfarið á bug og segir að fyrirtækið hafi verið upplýst um heilsufar sitt í gegnum trúnaðarlækni. 

„Fjölmiðlastrategía fyrirtækjanna hefur í raun verið með ólíkindum og þessi atburðarás gefur mér ekki annan kost en að grípa til varna. Mér var eðlilega brugðið að lesa um viðkvæmar heilsufarsupplýsingar mínar í fjölmiðlum og verð að viðurkenna að málið skapaði nýjan lágpunkt í viðleitni fyrirtækjanna til að klekkja á mér. Það er augljós skortur á auðmýkt, virðingu og almennri sómakennd hjá þeim sem stýra almannatengslum hjá þessum fyrirtækjum,“ segir Halldór. 

„Ég fór nauðbeygður í veikindaleyfi eftir ítarlega læknisrannsókn í desember 2020, með endurskoðun eftir þrjá mánuði. Það var auðvitað mikið búið að ganga á og ítrekaður ágreiningur við Róbert skapaði streitu og gerði það að verkum að ég þurfti að leggjast inn á spítala. Þá þurfti ég að leita bráðamóttöku þrisvar sinnum á síðasta ári vegna öndunarerfiðleika og var það mat heimilislæknis og annarra sérfræðinga að þetta tengdist álagi og streitu. Veikindaleyfi mínu lauk þó skyndilega með uppsögn fyrir utan World Class í Smáralind,“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK