United tilkynnir daglegt flug í sumar til Íslands

United Airlines ætlar að hefja flug frá Newark í júní …
United Airlines ætlar að hefja flug frá Newark í júní og Chicago í júlí. Ljósmynd/Aðsend

Bandaríska flugfélagið United Airlines ætlar að hefja flug til Íslands í júní frá New York og í júlí frá Chicago. Flogið verður daglega á báða staðina fram á haust. United hefur undanfarin ár boðið upp á flug til Íslands frá Bandaríkjunum, en þetta verður í fyrsta skipti sem flugfélagið flýgur frá Chicago til Íslands.

Áætlanir félagsins gera ráð fyrir því að hefja flug frá Newark-flugvellinum sem er staðsettur í New Jersey við hlið New York frá og með 3. júní og til 30. október. Félagið áætlar að hefja flug frá O´Hare-flugvelli í Chicago til Keflavíkur 1. júlí og að daglegt flug verði til 4. október.

Flugfélagið vísar til aukins áhuga á flugi til Íslands í tilkynningu og haft er eftir Patrick Quayle, aðstoðarframkvæmdastjóra alþjóðasviðs United, að farþegar séu áfjáðir að komast í langþráð ferðalag.

Í tilkynningu frá Isavia vegna þessa er haft eftir Guðmundi Daða Rúnarssyni, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar, að þetta sýni fram á vinsældir Íslands. „Sú ákvörðun félagsins að fjölga áfangstöðum er sterk vísbending um það að Ísland verði vinsæll áfangastaður eftir heimsfaraldurinn. Þá er ljóst að eftirspurn eftir ferðum frá Bandaríkjunum til Íslands er umtalsverð, en Bandaríkjamarkaður var mikilvægur fyrir faraldurinn og verður það áfram að honum loknum.“

Auk United mun bandaríska flugfélagið Delta hefja áætlunarflug sitt milli Bandaríkjanna og Íslands fljótlega, en horft er til þess að fyrsta flugið verði í maí.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK