Uppsagnir hjá Saltpay

Saltpay keypti Borgun í fyrra.
Saltpay keypti Borgun í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Uppsagnir standa nú yfir hjá færsluhirðingafyrirtækinu Saltpay, sem einnig gengur undir nafninu Borgun. Eru uppsagnirnar liður í breytingum sem standa yfir hjá fyrirtækinu.

Samkvæmt tilkynningu sem barst klukkan 14:00, eftir að fréttin birtist, kemur fram að SaltPay hafi ákveðið að fækka starfsfólki sem starfi fyrir fyrirtækið hér á landi. „Ákvörðunin hefur áhrif á talsverðan fjölda starfsfólks, en þó aðallega þá sem störfuðu við að þróa og viðhalda eldra greiðslukerfi Borgunar,“ segir í tilkynningunni.

Vísað er til þess að síðasta árið hafi staðið yfir rýning á öllum kerfum Borgunar. Greiðslukerfi fyrirtækisins sé í grunninn byggt á kerfi sem er orðið tæplega 40 ára gamalt og ljóst að því þyrfti að skipta út. „Sú vinna hefur staðið yfir og er komin á það stig að ekki verður þörf fyrir allt það starfsfólk sem sinnt hefur gamla kerfinu. Af þessu leiðir að fækkun verður á hugbúnaðarsviði, auk þess sem aukin sjálfvirkni og bætt tækni hefur áhrif til fækkunar á öðrum sviðum.“

Greint var frá því í nóvember að 29 starfsmönnum hefði verið sagt upp hjá fyrirtækinu, en á móti hefðu um 60 starfsmenn verið ráðnir til fyrirtækisins mánuðina á undan. Allt væri það hluti af miklum umbreytingum Borgunar yfir í þjónustumiðað tæknifyrirtæki.

Þegar Saltpay keypti Borgun ræddi mbl.is við Ali Maz­and­erani, sem er stjórn­ar­formaður Salt pay. Boðaði hann þá mikla sókn félagsins meðal annars á erlenda markaði.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK