Íslandi að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir ótækt að einkafyrirtæki og stórt útgerðarfyrirtæki geti farið á eftir ríkis- og embættismönnum eins og Samherji hefur gert og óttast að farið sé á eftir einstöku starfsfólki eftirlitsstofnunar persónulega. Það sé hlutverk seðlabankans að verja almannahagsmuni, en Íslandi hafi að miklu leyti verið stjórnað af hagsmunahópum sem fari sínu fram gegn veikum ríkisstofnunum.

Í viðtali við Stundina um fyrstu 18 mánuði sína í starfi ræðir hann meðal annars um kæruna  sem Samherji lagði fram gegn Seðlabankanum og fimm starfsmönnum hans vorið 2019 og hve afleitt sé að henni hafi ekki verið vísað frá, en kæran var lögð fram vegna húsleitar Seðlabankans á skrifstofum Samherja árið 2012 vegna meintra brota á gjaldeyrislögum. Málið liggur enn á borði lögreglustjórans á Vestfjörðum.

„Ég skil bara ekki hvern andskotann þessi lögreglustjóri þarf að rannsaka og af hverju þessu er ekki bara vísað frá. Ég óttast það að mörgu leyti, í svona eftirlitsstofnun eins og Seðlabankinn er, að við lendum í því að við verðum hundelt persónulega eins og farið var á eftir þessu starfsfólki,“ segir Ásgeir í viðtalinu og er augljóslega heitt í hamsi, en starfsmennirnir fimm sem um ræðir eru fyrirrennari Ásgeirs í embætti seðlabankastjóra, Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, Sigríður Logadóttir og Rannveig Júníusdóttir.

Vill sjá lög til verndar starfsfólki bankans

Ásgeir segir mikilvægt að ekki sé hægt að fara á eftir einstaka starfsfólki og að Seðlabankinn hafi talað fyrir því að Alþingi setji skaðleysislög til þess að verja embættismenn fyrir slíkum atlögum einkafyrirtækja. Eitt sé að fara gegn stofnuninni og framkvæmdastjóra hennar, en annað að fara gegn einstaka starfsmönnum sem séu að sinna skyldustörfum sínum.

„Okkur vantar miklu skýrari vernd í lögum fyrir opinbera starfsmenn. Við höfum verið að lobbíera fyir því gagnvart ríkisstjórninni en ekki fengið það í gegn. Við höfum beðið um þetta til að vernda opinbera starfsmenn og embættismenn gegn svona atlögum. Fólk sem ekki hefur lent í þessu veit ekki hvernig það er að verða fyrir þessu. Annars ætla ég ekki að blanda mér í þetta Samherjamál; það er málefni fortíðar. En það er mikilvægt að setja þessi lög til að vernda starfsmenn bankans.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK