Opna á morgun eftir áralangt ferli

Lónið verður formlega opnað á morgun en nokkrir gátu stungið …
Lónið verður formlega opnað á morgun en nokkrir gátu stungið sér ofan í fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfir tíu ára ferli er að baki nýja baðlónsins á Kársnesi, Sky Lagoon, sem opnar formlega á morgun. „Fólkið sem stendur á bak við þetta hefur gengið með þetta í maganum allan þann tíma,“ segir Dagný, framkvæmdastjóri lónsins, í samtali við mbl.is. Blaðamaður og ljósmyndari heimsóttu lónið í dag.

„Hönnunarferlið hefur einnig verið langt, það er mikið lagt í náttúruumgjörðina, upplifunarhönnun og hönnun fyrir skynvitin á borð við hvaða lyktir við eigum að hafa, á hvaða stöðum og svo framvegis.“

Framkvæmdirnar sjálfar hófust í byrjun síðasta árs, rétt áður en faraldur kórónuveirunnar skall á landinu.

„Það er búið að ganga hratt fyrir sig. Við ákváðum strax í byrjun að vera ekki að flagga neinu og vildum frekar koma fólki á óvart. Til að kalla fram hughrifin hjá fólki þegar það heimsækir lónið þá töldum við best að segja bara sem minnst, og leyfa upplifuninni að tala.“

Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon.
Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjartsýn fyrir sumarið

Dagný segir að gott hafi verið að geta einbeitt sér að uppbyggingu baðstaðarins á meðan faraldurinn hefur gengið yfir.

„Við erum svo mjög bjartsýn fyrir sumrinu, þó það geti farið seint af stað, en þegar það fer af stað þá held ég að hlutirnir gerist hratt. Við erum farin að finna það hjá okkar samstarfsaðilum að það er kominn mikill fjöldi fyrirspurna, til dæmis í Bandaríkjunum.

Við lítum því björtum augum á framtíðina. Þú ferð auðvitað ekki í svona fimm milljarða króna fjárfestingu nema þú sért að horfa til lengri tíma.“

Verkefnið hafi verið dýrt og tæknilega flókið.

„Maður þarf því að vera þolinmóður til að ráðast í þetta.“

Einn fjölmargra búningsklefa. Opið verður til klukkan 22 um helgar …
Einn fjölmargra búningsklefa. Opið verður til klukkan 22 um helgar til að byrja með. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú þúsund manns geti komið á dag

Spurð hversu mörgum gestum lónið muni geta tekið við á einum degi segir Dagný að það fari í raun eftir opnunartíma.

„Við ætlum að fara mjög hægt af stað. Við megum núna vera með 50% af hámarksfjölda og ætlum meira að segja að stilla okkur lægra en sem því nemur, á meðan við erum að venjast staðnum, þjálfa starfsfólkið og kynnast kerfunum. En við gætum tekið við um þrjú þúsund manns á dag með fullum opnunartíma, frá morgni til kvölds.

Kvöldsólin er enda æðisleg hérna, og svo miðnætursólin í sumar. Þegar sólin sest við Snæfellsjökull þá er hreinlega eins og hann standi í ljósum logum.“

Kornakrem er í boði fyrir gesti lónsins.
Kornakrem er í boði fyrir gesti lónsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar sé líka komin reynsla á það, að vinsælustu tímarnir til að bóka eru á kvöldin.

„Við erum svo með tólf ára aldurstakmark. Við viljum einfaldlega búa til stað þar sem fólk getur komið og slakað á. Markmið okkar er að hér geti fólk kúplað sig út úr amstri dagsins og ég hef fundið það á eigin skinni að maður nær því algjörlega.“

Hægt verður að kaupa veitingar eftir ferð ofan í lónið.
Hægt verður að kaupa veitingar eftir ferð ofan í lónið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markaðssetning í Bandaríkjunum

Opið verður til klukkan 22 um helgar til að byrja með en til klukkan 20 á virkum dögum.

„Svo aukum við opnunartímann eftir þörfum, þegar við sjáum hvaða tímar eru vinsælastir. Við höfum rætt það til dæmis að hafa opið til miðnættis alla vega á sumrin, þegar miðnætursólin er.“

Markaðssetning er hafin erlendis og hefur hún beinst aðallega að Bandaríkjamarkaði.

„Það er svona fyrsti markaðurinn sem sýnir að fólk er að fara að ferðast, og er að fara að bóka. Það hefur gengið það vel í bólusetningum þar. En við erum líka bara þakklát fyrir að fá að opna í rólegheitum og með heimamarkað í huga. Okkur finnst það skemmtilegt því staðurinn á að upphefja íslenska baðmenningu og íslenska náttúru.“

Sky Lagoon er úti á Kársnesi og útsýni er suður …
Sky Lagoon er úti á Kársnesi og útsýni er suður á Reykjanesskaga og norður á Seltjarnarnes. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Himinninn spilar með

Nafnið Sky Lagoon, hvernig kom það til?

„Við stóðum hérna mörgum sinnum og það var svo oft sem við dáðumst bara að himninum og ljósinu og þeim leik sem þau spiluðu. Við hugsuðum því sem svo að við stjórnum ekki himninum, og við stjórnum ekki veðrinu, en við stjórnum öllu hinu. Og við ákváðum því að gefa himninum nafnið, svo hann myndi kannski spila aðeins með okkur.“

Á fullum snúningi á lónið að skapa 110 stöðugildi sem dreifast munu á 140-150 starfsmenn að sögn Dagnýjar. Snemma árs byrjaði Sky Lagoon að auglýsa eftir starfsfólki og nú starfa þar um sextíu manns. Bætt verður við þennan fjölda í maí og júní samkvæmt áætlunum, en búið er að ráða starfsfólk fyrir sumarið.

„En við gerum líka ráð fyrir að vera mjög sterk á veturna, enda erum við stutt frá Reykjavík og margir ferðamenn fara ekki mikið út fyrir höfuðborgina.“

Baðstaðir hafa gjarnan átt það til að stækka með árunum og spurð út í stækkunarmöguleika segir Dagný að þeir séu vissulega til staðar.

„Við erum með stækkunarmöguleika bæði til norðurs og suðurs. Við ætlum bara að sjá hver reynslan verður og hvað leggst vel í gestina okkar, og bara á hvaða sviði við viljum stækka.“

Rúðan stóra í gufubaðinu vegur 2,2 tonn.
Rúðan stóra í gufubaðinu vegur 2,2 tonn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stærsta rúða Íslands

Viðtalið tók blaðamaður í stóru gufubaði, sem þó var ekki í gangi á meðan á því stóð. En á einni hlið þess er risavaxin rúða, raunar sú stærsta á Íslandi.

„Þetta útsýni er auðvitað alveg magnað og við vildum nýta það sem allra best. Við fórum því á stúfana, því þetta hefur aldrei verið gert hérna heima. Rúðan þarf að þola allt að 120 gráða hita inni á meðan það er kannski frost og vindur á sama tíma að utanverðu.

Við fundum erlenda aðila sem hanna öll rými fyrir Apple, bæði verslanirnar og höfuðstöðvarnar, og þeir hönnuðu þetta með okkur. Svo var þetta smíðað í Þýskalandi og flutt hingað.“

Rúðan vegur 2,2 tonn.

„Bara fyrir sex mánuðum síðan hefði ekki verið hægt að koma henni fyrir, því það voru ekki til nógu stórar og sterkar blöðkur til að hífa hana hérna yfir. Það var smá stress þegar var verið að hífa hana upp, ég viðurkenni það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK