Eiga að hvetja til grænna fjárfestinga

Fjallað er um breytingarnar á vef stjórnarráðsins.
Fjallað er um breytingarnar á vef stjórnarráðsins. mbl.is/​Hari

Alþingi samþykkti á dögunum frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um breytingar á lögum um tekjuskatt, sem felur í sér aukna hvata fyrir einkaaðila til fjárfestinga í eignum sem teljast umhverfisvænar (grænar eignir) og stuðla að grænni umbreytingu.

Bent er á þetta á vef stjórnarráðsins og tekið fram að þessi lög feli helst í sér tvær breytingar.

„Sú fyrri snýr að frestun skattgreiðslna fyrirtækja með hraðari fyrningu eigna sem býr til frekara svigrúm til fjárfestinga. Hin síðari snýr að sérstakri ívilnun til að styðja við umhverfisvænar fjárfestingar og græna umbreytingu hjá fyrirtækjum, þar sem heimilað er að reikna sérstakt fyrnanlegt álag á kaupverð grænna eigna.“

Fjárfesting dregist saman

Frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar reið yfir hefur fjárfesting dregist verulega saman og atvinnuleysi aukist til muna. Hið opinbera hefur brugðist við slaka í fjárfestingu með auknum framlögum til opinberra framkvæmda, en skortur er á fjárfestingu af hálfu einkaaðila.

Ákvæðinu sem nú hefur verið sett í lög um tekjuskatt, til bráðabirgða, er ætlað að hvetja til fjárfestinga einkaaðila sem liðar í að skapa öfluga viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum faraldursins.

Aðgerðin sem snýr að flýtifyrningu eigna leiðir til lægri skattgreiðslna fyrstu árin eftir kaup, en á móti koma hærri skattgreiðslur á síðari árum þegar búið er að fyrna eignina um allt að 50% af fyrningargrunni, allt að niðurlagsverði hennar. Heimild til flýtifyrningar á við um eignir sem fjárfest er í á árunum 2021 og 2022.

Þurfa að teljast umhverfisvænar

Með breytingum sem snúa að áherslu á fjárfestingu í umhverfisvænum eignum er stutt við grænar umbreytingar sem eru nauðsynlegar á öllum sviðum samfélagsins til að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda.

Í nýjum lögum er þannig að finna heimild til að reikna sérstakt álag á kaupverð grænna eigna sem hægt yrði að fyrna (gjaldfæra) á móti skattskyldum tekjum. Fyrningarálagið nemur 25% vegna lögaðila sem sæta 20% tekjuskatti, 13,3% vegna lögaðila sem sæta 37,6% tekjuskatti og 13,18% vegna einstaklinga í atvinnurekstri. Til þess að falla undir heimildina þurfa eignir að teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærri þróun eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Ívilnunin nær til fjárfestinga í grænum eignum á árunum 2021 til 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK