Magnús selur fyrir 48,5 milljónir í Festi

Magnús Júlíusson, deildarstjóri orkusviðs N1.
Magnús Júlíusson, deildarstjóri orkusviðs N1. mbl.is/Hari

Magnús Júlíusson, deildarstjóri orkusviðs N1 og annar stofnandi Íslenskrar orkumiðlunar, sem seld var til N1 fyrir rúmlega ári, hefur selt hlutabréf í Festi, móðurfélagi N1, fyrir 48,5 milljónir króna. Samtals er um að ræða 250 þúsund hluti á genginu 194. Það var félagið Betelgás ehf., sem er að fullu í eigu Magnúsar, sem átti bréfin, en við sölu Íslenskrar orkumiðlunar í fyrra var meðal annars greitt með hlutabréfum í Festi.

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar vegna viðskipta fruminnherja kemur fram að enn séu 685.861 hlutir, að verðmæti 133 milljónir, í eigu fjárhagslega tengdra aðila Magnúsar.

Íslensk orkumiðlun var stofnuð af Magnúsi og Bjarna Ármannssyni, en auk þeirra áttu Ísfélag Vestmannaeyja, Kaupfélag Skagfirðinga og Festi stóran hlut í félaginu. Í mars í fyrra var svo tilkynnt um að Festi hefði keypt öll bréf félagsins og var það þá verðmetið á 850 milljónir í heild. Seljendur skuldbundu sig til að selja ekki hluti sína í 12 mánuði frá afhendingu.

Við kaupin færðist Íslensk orkumiðlun undir N1, sem er orkusali Festar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK