„Sem betur fer fundum við frysti“

Júlía Rós Atladóttir við móttöku fyrstu bóluefnanna til landsins.
Júlía Rós Atladóttir við móttöku fyrstu bóluefnanna til landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Allur heimurinn fór af stað að leita að frystiskápum sem kæla í -80 gráður fyrir Pfizer-bóluefni. Fáir lyfjaheildsalar áttu slíkan frysti, en sem betur fer fundum við frysti og hann kom til landsins nokkrum dögum á undan fyrstu bóluefnasendingunni.“

Þetta segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, um atburðarásina sem fór af stað þegar ljóst varð að bóluefni lyfjaframleiðandans Pfizer kæmi til landsins.

Distica sér um dreifingu og hýsingu bóluefna við kórónuveirunni hér á landi og hafa starfsmenn þess staðið í ströngu við móttöku og hýsingu efnisins á liðnum mánuðum.

Júlía segir að margt hafi verið vandasamt í birgðastýringu lyfja og heilbrigðisvara á tímum faraldursins. Hún verður með fyrirlestur í vefvarpi Origo á þriðjudag, þar sem hún fer yfir þessi mál.

Lyfjaskortur á Norðurlöndunum

Júlía nefnir að sýnatökupinnar og greiningartæki hafi verið illfáanleg og því hafi þurft töluverða útsjónasemi að útvega þann búnað til landsins.

„Við erum vön því að geta brugðist hratt við ef það vantar lyf til landsins, pantað og sent með flugi og fengið til landsins með stuttum fyrirvara. Allt í einu voru engin flug og samgöngur til landsins afar fáar, til að koma í veg fyrir lyfjaskort á Covid-tímum jukum við lyfjabirgðir okkar um 1,5 miljarð. Við tökum mjög alvarlega það hlutverk að á Íslandi sé ekki lyfjaskortur og það hefur gengið mjög vel, á Norðurlöndunum var lyfjaskortur í upphafi COVID en ekki hér á landi.“

Fylgjast með staðsetningu og hitastigi

Hún segir að lyf séu viðkvæm fyrir hitastigi og flutningur lyfja séu því vandasamur. Ef lyf séu geymd við rangt hitastig geti það haft áhrif á virkni lyfsins.

„Undanfarin 10 ár höfum við unnið náið með íslenska fyrirtækinu Controlant við að þróa hitasírita til að fylgjast náið með hitastigi í flutningi, Controlant nemarnir senda frá sér aðvörun ef hitastig lyfjanna er að fara út fyrir mörk og þá er hægt að bregðast við. Við fylgjumst með staðsetningu og hitastigi allra lyfja- og bóluefnasendinga sem fara frá okkur í dreifngu um allt land,“ segir Júlía.

Distica er með um 62% hlutdeild í dreifingu lyfja á Íslandi. Fyrirtækið rekur eitt fullkomnasta vöruhús landsins, sem er sérhæft í meðhöndlun á lyfjum og vörum sem krefjast hitastýringar. Velta fyrirtækisins var um 25 milljarðar króna á síðasta ári en alls starfa um 90 manns hjá fyrurtækinu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK