Eimskip hagnaðist um 422 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi

Tekjur Eimskips námu rúmum 180 milljónum evra á tímabilinu eða …
Tekjur Eimskips námu rúmum 180 milljónum evra á tímabilinu eða rúmum 27 milljörðum króna. Ljósmynd/Eimskip

Flutningafyrirtækið Eimskip hagnaðist um 2,8 milljónir evra á fyrsta fjórðungi ársins, eða 422 milljónir króna. Á sama tíma í fyrra var tap félagsins 4,9 milljónir evra, eða 739 milljónir króna.

Eignir félagsins námu í lok fjórðungsins 553 milljónum evra, eða 83,5 milljörðum króna, en þær voru 536 milljónir evra á sama tíma á síðasta ári. Aukningin er rúm þrjú prósent.

Eigið fé félagsins nam 222 milljónum evra í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfallið var 40,2%. Til samanburðar var eiginfjárhlutfallið 43,0% í árslok 2020.

Bætt afkoma í gámasiglingakerfinu

Í fréttatilkynningu félagsins kemur fram að heilt yfir hafi rekstrarárangur verið góður á fyrsta ársfjórðungi með bættri afkomu í gámasiglingakerfinu og jákvæðum niðurstöðum í flutningsmiðlun þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður sem litast hafi af ójafnvægi á alþjóða skipaflutningamörkuðum sem áhrif hafði á afkastagetu og aðgengi að tækjabúnaði.

Tekjur Eimskips námu rúmum 180 milljónum evra á tímabilinu eða rúmum 27 milljörðum króna. Tekjurnar hækkuðu um 18,6 milljónir evra eða 11,5% samanborið við sama tímabil á árinu 2020.

Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskips.
Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskips. Kristinn Magnússon

Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri fyrirtækisins segist í tilkynningunni vera ánægður með rekstrarárangur fjórðungsins. „EBITDA tímabilsins jókst verulega milli ára eða um 7,0 milljónir evra, meðal annars vegna mikillar áherslu á tekjustýringu, betri nýtingar í gámasiglingakerfinu og svo gætir enn áhrifa hagræðingarverkefna síðasta árs. Það var sterk magnaukning í Trans-Atlantic-flutningum á fjórðungnum þar sem við, að hluta til, nutum góðs af ójafnvægi á alþjóða skipaflutningamörkuðum þar sem eftirspurn hefur verið meiri en afkastageta í siglingum yfir hafið. Á móti kemur að staðan á þessum mörkuðum hefur meðal annars valdið hækkunum á leiguverði skipa og þar af leiðandi aukið kostnað í gámasiglingakerfinu okkar,“ segir Vilhelm.

Krefjandi rekstur í Færeyjum

Hann segir að rekstur félagsins í Færeyjum hafi verið krefjandi vegna áhrifa Brexit og COVID-19, sérstaklega í útflutningi á ferskum fiski, en þróunin í lok fjórðungsins hafi verið jákvæð og sú hafi þróun haldið áfram inn í annan ársfjórðung. „Heilt yfir var afkoma í alþjóðlegu flutningsmiðluninni góð þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður. Innanlandsrekstur á Íslandi var góður og naut meðal annars góðs af auknum umsvifum. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður á alþjóðamörkuðum hefur okkur tekist að viðhalda þjónustustigi í gámasiglingum og aðgengi viðskiptavina að nauðsynlegum búnaði sem má sérstaklega þakka útsjónarsemi starfsfólks.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK