Pakkaport opnuð í verslunum Krambúðarinnar

Haukur Benediktsson rekstrarstjóri Krambúðarinnar og Tanja Dögg Sigurðardóttir frá Póstinum. …
Haukur Benediktsson rekstrarstjóri Krambúðarinnar og Tanja Dögg Sigurðardóttir frá Póstinum. Pósturinn hefur opnað pakkaport í þremur verslunum Krambúðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Fyrstu þrjú pakkaport Póstsins í verslunum Krambúðarinnar hafa verið opnuð í Krambúðinni Hófgerði, Laugalæk og Skólavörðustíg. Samkaup, eigandi Krambúðarinnar, og Pósturinn gerðu með sér samstarfssamning um póstþjónustu í yfir tuttugu verslanna Samkaupa um land allt í lok síðasta árs.

Pakkaport eru afhendingarleið fyrirframgreiddra sendinga hjá Póstinum í alfaraleið viðskiptavina, að því er segir í tilkynningu. Viðskiptavinir Póstsins geta því þannig nálgast póstsendingar utan hefðbundins afgreiðslutíma Póstsins. Pakkaportin hafa áður verið aðgengileg á nokkrum stöðvum Orkunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Leggja áherslu á að bæta þjónustuna

„Við erum gríðarlega stolt af samstarfinu við Póstinn því nú getum við boðið viðskiptavinum okkar upp á enn betri nærþjónustu, sem er eitt af megin markmiðum Samkaupa. Nú er hægt að versla á netinu og sækja póstsendingar á einum og sama staðnum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

„Við erum mjög ánægð með samstarfið við Samkaup sem gerir okkur mögulegt að stækka dreifikerfið okkar enn frekar og auðvelda viðskiptavinum að sækja sína þjónustu til Póstsins. Við höfum lagt áherslu á að bæta þjónustuna og komast nær viðskiptavinum okkar með því að opna nýja afhendingarstaði um allt land. Fjölgun Pakkaporta í samstarfi við Samkaup er skref í þeirri þróun,“ segir Ósk Heiða Sveinsdóttir, forstöðumaður þjónustu og markaða hjá Póstinum, í tilkynningunni. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK