Spá tæplega 5% hagvexti

Gert er ráð fyrir um 800.000 erlendum ferðamönnum í ár, …
Gert er ráð fyrir um 800.000 erlendum ferðamönnum í ár, 1,5 milljónum á næsta ári og um 2 milljónum árið 2023. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að efnahagsbatinn hefjist á öðrum ársfjórðungi 2021 og að landsframleiðslan vaxi um tæp 5% á árinu. Góður gangur í bólusetningum, bæði innanlands og í helstu viðskiptalöndum, bendir til þess að ferðaþjónustan taki fyrr við sér en reiknað var með síðastliðið haust.

Hagfræðideild spáir hóflegri en þó áfram kröftugum hagvexti á næsta ári, en að það hægi meira á hagvexti árið 2023 en áður var reiknað með. Útlit er fyrir að verðbólga gangi hægt og sígandi niður eftir því sem líður á árið samhliða því sem alþjóðleg áhrif faraldursins á hrávöruverð og flutningskostnað fjara út. Áhrif vegna styrkingar krónunnar síðustu mánuði, umtalsverður framleiðsluslaki og varfærin hækkun stýrivaxta á seinni hluta ársins, ætti að skila sér í verðbólgu sem verður nálægt markmiði Seðlabanka Íslands um mitt næsta ár.

Helstu niðurstöður nýrrar hagspár Landsbankans:

  • Útlit er fyrir að böndum verði komið á Covid-19-heimsfaraldurinn á seinni hluta árs 2021 og að landsframleiðslan hér á landi aukist um 4,9% á árinu. Útflutningur eykst um ríflega 15%, einkaneysla um 3,8% og heildarfjármunamyndun um 5,5%.
  • Reiknað er með samfelldum hagvexti næstu tvö árin; 3,3% árið 2022 og 2,2% árið 2023. Áætlað er að verg landsframleiðsla nái sama stigi og fyrir faraldurinn undir lok árs 2022.
  • Gert er ráð fyrir um 800.000 erlendum ferðamönnum í ár, 1,5 milljónum á næsta ári og um 2 milljónum árið 2023.
  • Draga mun úr atvinnuleysi en útlit er fyrir að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 8,8% á þessu ári, lækki í 5,5% á næsta ári og verði nálægt 4,6% árið 2023.
  • Gert er ráð fyrir að viðskiptajöfnuður við útlönd verði jákvæður um að jafnaði 1,1% af landsframleiðslu næstu þrjú árin.
  • Verðbólgan nær hámarki á öðrum ársfjórðungi 2021 og verður töluvert yfir markmiði út þetta ár en verður komin í markmið um mitt næsta ár. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 4% í ár, 2,5% á næsta ári og 2,6% árið 2023.
  • Spáin gerir ráð fyrir að stýrivextir verði hækkaðir á seinni helmingi ársins og að meginvextir Seðlabanka Íslands verði 1,5% í árslok, hækki í 2,5% árið 2022 og verði 2,75% í lok árs 2023.
  • Fasteignamarkaðurinn tók verulega við sér í vor í kjölfar vaxtalækkana. Við gerum ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 10,5% í ár, milli ársmeðaltala, en að það hægi verulega á hækkunartaktinum næstu ár.
  • Ríkissjóður hefur tekið á sig miklar byrðar í kreppunni. Fjárlög ársins 2021 voru samþykkt með 326 ma.kr. halla. Samneysluútgjöld jukust um 3,1% á árinu 2020 og við spáum 2% aukningu í ár.  
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK