ASÍ hvetur fólk til að sniðganga Play

Lægstu laun Play eru töluvert undir grunnatvinnuleysisbótum.
Lægstu laun Play eru töluvert undir grunnatvinnuleysisbótum.

Alþýðusamband Íslands hvetur landsmenn til að sniðganga flugfélagið Play í ljósi þess að fyrirtækið ætli sér að undirbjóða laun starfsfólks til að halda flugfargjöldum í lágmarki. 

Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ.

Fyrr í dag fór fram miðstjórnarfundur ASÍ þar sem kjarasamningar flugfélagsins Play voru ræddir. Samkvæmt samningi Play við stéttarfélagið ÍFF sem ASÍ vísar til eru lægstu laun fyrirtækisins 266.500 krónur sem eru 40.930 krónum lægri en atvinnuleysisbætur. Kemur jafnframt fram í tilkynningu ASÍ að flugtímar innifaldir í grunnlaunum Play séu fleiri í samanburði við Icelandair, og greiddir yfirvinnutímar færri. Eru þá dagpeningar, bifreiðastyrkur og desemberuppbót Play-starfsmanna einnig lægri en starfsmanna Icelandair.

„Það er því með engu móti hægt að segja að Play fari eftir hefðum og reglum á íslenskum vinnumarkaði og með því að neita að gera kjarasamning við Flugfreyjufélag Íslands segir félagið sig úr samfélagi hins skipulagða vinnumarkaðar. Við það verður ekki unað og er félagið að boða til ófriðar og deilna um ófyrirsjáanlega framtíð ef ekki verður gengið til raunverulegra kjarasamningsviðræðna við félag sem sannanlega er skipulagt af þeim sem eiga að vinna samkvæmt kjarasamningnum,“ segir í tilkynningunni.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Málið litið alvarlegum augum

Drífa Snædal, forseti ASÍ, kveðst afar ósátt við framferði fyrirtækisins og telur ástandið óviðunandi.

„Við stígum mjög fast til jarðar og það er ekkert alveg sjálfsagt mál að miðstjórn [ASÍ] hvetji fólk til að sniðganga fyrirtæki eða fjárfesta sem sýnir hvað við lítum þetta gríðarlega alvarlegum augum. Þetta eru ein mestu undirboð sem við höfum séð á íslenskum vinnumarkaði í langa tíð,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Ég hvet bara Play til að ganga til alvörukjarasamninga við alvörustéttarfélag til þess að forðast mjög erfiða stöðu til framtíðar. Ef að Play hefði gert það hefðum við fagnað samkeppni og auknum atvinnutækifærum,“ bætir hún við.

Samkvæmt Drífu liggur vandamálið í því að flugliðar eru ekki með algilda kjarasamninga eins og hjá öðrum stéttum sem gerir það að verkum að Play getur undirboðið launin án þess að brjóta lög. Þrátt fyrir það segir hún samningana yfir höfuð ekki nógu skýra og því tilefni að rýna betur í þá. „Það er ýmislegt í þeim sem orkar tvímælis og við erum að fara að skoða það núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK