Mikil verðbólga stýrir vaxtahækkun

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1%. Helsta ástæða hækkunarinnar er meiri og þrálátari verðbólga en hún mælist nú 4,6%. Verðbólgumarkmið bankans er 2,5%.

Þetta er í takt við mat greiningardeildar Íslandsbanka sem taldi að peningastefnunefnd Seðlabankans myndi hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur við vaxtaákvörðunina í dag. „Mikil og þrálát verðbólga ásamt minnkandi óvissu um komandi efnahagsbata munu að okkar mati ríða baggamuninn um vaxtahækkun þótt óbreyttir vextir séu ekki útilokaðir. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir óbreyttum vöxtum fram á lokafjórðung ársins en hægfara vaxtahækkunarferli eftir það,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Hagspá Landsbankans gerir ráð fyrir að stýrivextir verði hækkaðir á seinni helmingi ársins og að meginvextir Seðlabanka Íslands verði 1,5% í árslok, hækki í 2,5% árið 2022 og verði 2,75% í lok árs 2023. 

„Efnahagsbatinn var kröftugri á seinni hluta síðasta árs en áður var talið. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í maíhefti Peningamála eru horfur á liðlega 3% hagvexti í ár og yfir 5% hagvexti á næsta ári. Horfur hafa batnað frá fyrri spá bankans og vega þar þyngst vísbendingar um meiri bata innlendrar eftirspurnar. Atvinnuleysi hefur hjaðnað þótt það sé enn mikið. Slakinn í þjóðarbúskapnum virðist því vera minni og útlit er fyrir að hann hverfi fyrr en áður var talið.

Framboðstruflanir vegna Covid-19-farsóttarinnar hafa hækkað kostnað við að framleiða og dreifa vörum um allan heim og alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefur einnig hækkað mikið undanfarið. Þessar hækkanir kunna þó að vera tímabundnar.

Verðbólga hefur því reynst meiri og þrálátari en áður var spáð og mældist 4,6% í apríl. Verðbólguþrýstingur virðist almennur enda mælist undirliggjandi verðbólga svipuð og mæld verðbólga. Margt leggst þar á eitt eins og áhrif gengislækkunar krónunnar í fyrra og miklar hækkanir launa og húsnæðisverðs. Því er nauðsynlegt að hækka vexti bankans til þess að tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiðinu.

Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Greining Íslandsbanka segir að útlit sé er fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% á milli mánaða. Hins vegar mun 12 mánaða verðbólga hjaðna í maí gangi spá deildarinnar eftir og mælast 4,4%. „Íbúðaverð vegur þungt til hækkunar í mánuðinum en mikill hiti virðist vera í íbúðamarkaðnum þessa dagana. Verðbólga hefur reynst þrálátari en við höfum spáð undanfarið en verðbólguhorfur eru þó allgóðar.“

Sjá nánar hér

Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,33% hækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir lækkar verðbólgan úr 4,6% í 4,3%.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK