„Við höfum öll svakalega mikið vald“

„En við þurfum öll sem einstaklingar og fyrirtæki að skoða hvaða áhrif erum við að hafa á umhverfi okkar, ekki bara félagsleg áhrif heldur líka umhverfisáhrifin. Við höfum öll svakalega mikið vald. Við getum ákveðið hvar við verslum og hvað við verslum. Við tökum líka ákvarðanir um hvernig við hegðum okkur, hvað ætlum við að gera við það sem fellur til í starfseminni hjá okkur og þess háttar.“

Þetta segir Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Brimi í samtali í Dagmálum. Hún var áður framkvæmdastjóri Krónunnar og hefur verið leiðandi við innleiðingu samfélagsábyrgðar og umhverfisverndar á ólíkum sviðum íslensks viðskiptalífs.

Nærsamfélagið eða stærri myndin

Þegar hún er spurð út í þessi viðfangsefni og hvaða þýðingu þau hafi segir hún:

„Markmiðið er að hafa áhrif til góðs á samfélagið sem þú býrð í. Þú getur horft á það sem nærsamfélagið þitt eða stækkað myndina og það fer dálítið eftir því hvar þú starfar.“

Í viðtalinu bendir hún á að á vettvangi Brims sé lögð áhersla á mælanleika og að hægt sé að fylgjast með því hvaða áhrif rekstur fyrirtækisins er í raun að hafa á umhverfið. Þar séu mörg tækifæri. Áhugavert sé að geta borið saman ólíkar deildir eða sambærilegar innan fyrirtækisins og nefnir hún sérstaklega fiskveiðiskipin í því tilliti. Forvitnilegt og gagnlegt sé að bera saman olíunotkun þeirra og hvaða skip standa sig vel og hver ekki.

Gott að keppa til góðs

Hún segir að þótt viðfangsefnið sé ekki keppni í sjálfu sér þá vilji allir keppa og vinna og því geti betrumbætur á sviði umhverfisverndar átt sér stað á grundvelli keppni þar sem starfsfólki er umbunað fyrir góðan árangur. Það hafi t.d. reynst vel á vettvangi Krónunnar þar sem verslanir kepptu sín á milli um flokkunarhlutfall rusls.

Gréta María bendir einnig á að hjá Brimi séu nú starfræktar þrjár flokkunarstöðvar þar sem allt sem fellur til við framleiðslu fyrirtækisins, bæði á sjó og í landi, fari í gegnum flokkun og reynt sé að hámarka endurvinnslu og nýtingu.

Gréta María er gest­ur Stef­áns Ein­ars Stef­áns­son­ar í Dag­mál­um.

Þættir Dagmála eru opnir öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á þátt­inn í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK