Nýjar MAX-vélar „miklar gleðifréttir“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvær glænýjar Boeing 737-MAX-vélar komu hingað til lands frá bandarísku borginni Seattle í nótt og verða þær komnar inn í leiðarkerfi Icelandair eftir örfáar vikur.

„Þetta eru miklar gleðifréttir,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, og bætir við að MAX-vélarnar hafi verið að reynast mjög vel. Þriðja vélin var afhent í Seattle í dag og er hún væntanleg hingað til lands á næstu dögum.

Flugvélarnar eru á meðal þeirra sem Icelandair gerði samning um að kaupa af Boeing, sem er með höfuðstöðvar sínar í Seattle. Bætast þær við þær sex sem fyrir eru hjá flugfélaginu. Alls verða því í flotanum níu 737 MAX-vélar, þar af sex svokallaðar MAX 8-vélar sem taka 160 manns í sæti og þrjár MAX 9 sem taka 178 manns í sæti.

Fyrir utan þessar þrjár nýju vélar frá Seattle verða vélar teknar inn sem voru í geymslu vegna Covid-19. Þrjár nýjar MAX-vélar til viðbótar eru síðan væntanlegar um næstu áramót, að sögn Boga Nils.

Boeing 737 MAX-flugvél Icelandair.
Boeing 737 MAX-flugvél Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Fljúga til sex bandarískra borga

Spurður út í stöðu mála í millilandaflugi í dag segir hann hlutina komna í gang og bjartari tíma framundan í ljósi betri stöðu í baráttunni við kórónuveiruna. „Bókunarflæðið er gott, sérstaklega frá Bandaríkjunum,“ segir Bogi og nefnir að í lok þessa mánaðar verða áfangastaðirnir til Bandaríkjanna orðnir sex talsins. Auk flugferða til borganna Boston, New York, Seattle og Washington munu Denver og Chicago bætast í hópinn. Tíu áfangastaðir eru sömuleiðis í Evrópu.

Vörumerkinu haldið vel á lofti 

Bogi segir Ísland vera í sterkri stöðu sem ferðamannaland og nefnir að Icelandair hafi verið í öflugum markaðsherferðum að undanförnu og að vörumerki flugfélagsins hafi verið haldið vel á lofti í gegnum Covid-ástandið. Góð staða í sóttvarnamálum auki einnig traust á Íslandi og flugferðum sé að fjölga. Hann bendir á að eldgosið í Geldingadölum skemmi heldur ekki fyrir við að laða að ferðamenn til landsins.

Standa við loforðið

Í fyrstu vikunni í júní er gert ráð fyrir að brottfarir Icelandair frá Keflavík verði orðnar um 50 og að þær verði komnar í 100 seinna í mánuðinum. „Það er mjög jákvætt að ferðamenn eru farnir að koma og við erum að fjölga flugferðum til muna. Við erum að standa við það sem við lofuðum síðasta sumar um að halda öllum innviðum gangandi, miklum sveigjanleika og vörumerkinu á lofti á mörkuðum erlendis til að vera tilbúin þegar markaðir opnast á ný,“ greinir Bogi frá.

„Um leið og ferðatakmarkanir voru rýmkaðar fyrir bólusetta ferðamenn frá Bandaríkjunum til dæmis, settum við allt í gang, bókanir tóku fljótt við sér og ferðamenn eru þegar að koma til landsins.“

Bregðast ekki sérstaklega við samkeppni við Play

Spurður hvað honum finnst um kjaradeilur ASÍ og nýja flugfélagsins Play kveðst hann ekkert vilja tjá sig um þær. Hvað varðar viðbrögð Icelandair við aukinni samkeppni af hálfu Play segir hann flugfélagið ekki ætla að bregðast sérstaklega við henni. „Við höfum verið að vinna á mjög hörðum samkeppnismarkaði til mjög margra ára og við höldum því bara áfram,“ segir Bogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK