Flyr í loftið 30. júní

Svona munu vélar Flyr líta út þegar þær fyrstu hefja …
Svona munu vélar Flyr líta út þegar þær fyrstu hefja sig til flugs frá Ósló 30. júní en forsala flugmiða hófst í dag. Stjórnendur Flyr láta engan bilbug á sér finna og ætla að bjóða risunum birginn, Norwegian og SAS. Ljósmynd/Unfold

Nýtt norskt flugfélag, Flyr, hóf miðasölu í dag, stefnir á flugtak 30. júní og ætla stjórnendur þess sér hluta af þeirri köku sem Skandinavíurisarnir á markaðnum, Norwegian og SAS, sitja að með því að fljúga, til að byrja með, Boeing 737-800-vélum sínum frá Ósló til sex áfangastaða innanlands auk Alicante og Malaga á Spáni og Nice í Frakklandi.

Stjórnendur þessir eru ekki ókunnir flugrekstri með öllu, en þar eru þau Erik G. Braathens, erfingi hins fornfræga norska Braathens-flugfélags sem stofnað var árið 1946 og rann að lokum inn í SAS, og Tonje Wikstrøm Frislid, fyrrverandi aðstoðaráhafnastjóri Norwegian, en hún starfaði hjá flugfélaginu í 11 ár.

Flyr hóf forsölu flugmiða í dag sem fyrr segir og byggja þau Braathens og Frislid sókn sína inn á markaðinn á lágum fargjöldum og takmörkuðum aukagjöldum.

Á Teams frá byrjun

„Stærsta áskorunin er að við höfum þurft að vinna allt gegnum Teams síðan við hófum að skipuleggja félagið í fyrrahaust,“ segir Thomas Ramdahl, viðskiptastjóri nýja flugfélagsins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, og vísar þar auðvitað til samkomutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins.

„Núna er mikilvægast að við náum að grípa ölduna sem nú er að koma við lok faraldursins,“ heldur Ramdahl áfram, „við byrjum með miðaverð allt niður í 384 krónur [5.546 ISK] með ókeypis sætavali og ókeypis breytingu á brottfarartíma auk þess sem ekki þarf að greiða fyrir farangur til að byrja með. Við erum alnorskt félag og ætlum okkur að bjóða flug milli stærri áfangastaða í Noregi og vinsælla staða erlendis,“ segir viðskiptastjórinn, en innanlands flýgur Flyr fyrst um sinn til Tromsø, Bodø, Þrándheims, Bergen, Harstad og Narvik.

Hvernig hyggst Flyr þá takast á við stórlaxana, Norwegian og SAS, í komandi samkeppni?

„Verðið hjá okkur er samkeppnishæft, en auk þess leggjum við áherslu á einfalda rafræna þjónustu og góða þjónustu um borð. Við leggjum ekki gjald á flugmiðabreytingar og hjá okkur er farangur bara farangur, enginn gjaldamunur eftir því hvort um er að ræða golfpoka, reiðhjól eða venjulega ferðatösku,“ svarar Ramdahl og kveður farþegana vera gesti flugfélagsins sem ætli sér ekki að vera þekkt af földum kostnaðarliðum.

Spurn eftir flugi verði gríðarleg

Hann segir Flyr hafa átt kost á ódýrum flugvélum vegna heimsfaraldursins auk þess sem framboðið af starfsfólki sem misst hafi störf sín hjá öðrum flugfélögum hafi gefið nýja félaginu byr undir báða vængi, bókstaflega. Hjá félaginu starfi nú 60 manns, en gert sé ráð fyrir að sú tala verði orðin 350 fyrir árslok og flugflotinn verði milli 25 og 30 vélar þegar félagið hafi náð því umfangi sem að er stefnt árin 2024 og '25.

Espen Andersen, dósent við BI-viðskiptaháskólann í Ósló, segir Flyr vera eins konar „Norwegian án þensludraumanna“ sem hafi hvort tveggja kosti og galla með í för. „Spurn eftir flugi verður gríðarleg fyrr en varir, hömlum er alls staðar að létta og nú vill fjöldi fólks komast til útlanda til að kanna ástandið á íbúðunum sínum við sólarstrendurnar,“ segir hann, en slær þann varnagla að róðurinn geti reynst þungur félagi með mjög fáa áfangastaði.

„Segjum að þú sért með 60 eða 70 áfangastaði og mætir samkeppni á þremur þeirra. Þá þarftu ekki að gera annað en að lækka verðið á þessum fáu flugleiðum og vinna tapið upp með áfangastöðunum sem þú einokar,“ bendir dósentinn á og hefur auk þess sínar efasemdir um þann lið í markaðssetningunni að félagið sé norskt og með norska samstarfsaðila.

Espen Andersen, dósent við BI-viðskiptaháskólann í Ósló, segir Flyr vera …
Espen Andersen, dósent við BI-viðskiptaháskólann í Ósló, segir Flyr vera „Norwegian án þensludrauma“ og verði spennandi að fylgjast með þróuninni þótt gallar séu á viðskiptaáætluninni engu síður en kostir. Ljósmynd/Unfold

„Ekki þykir mér það vænlegt. Tryggð viðskiptavina í flugi gengur fyrir bónuspunktum. Að þeim slepptum kaupir fólk ódýrasta miðann svo lengi sem það treystir því að vélin hrapi ekki. Svo þetta hugsa ég að ráði engum úrslitum,“ segir hann, en játar að koma nýgræðingsins á markaðinn verði athyglisverð.

„Þetta verður spennandi. Flugfélög styðjast mikið til við sömu grunnkerfin sem kosta það sama hvort sem þú rekur eina vél eða hundrað. Því fleiri vélar, þeim mun víðar dreifist kostnaðurinn. Hér er spurningin hvort vélarnar verði nægilega margar til að ná kostnaðinum nægilega mikið niður,“ segir dósentinn að lokum.

NRK

E24

Finansavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK