Íslendinga þyrstir í að komast til Tenerife

Sala á flugferðum gengur vel hjá Play.
Sala á flugferðum gengur vel hjá Play.

„Það gengur gríðarlega vel og þá eru sérstaklega miklar bókanir núna í júlí og ágúst,“ segir Birgir Jónsson forstjóri Play í samtali við mbl.is.

Hann tekur fram að fjöldi bókana komi töluvert á óvart þar sem óvíst hafi verið hversu Íslendingar væru tilbúnir til að ferðast mikið í sumar sökum faraldursins. Hann segir þó að vélarnar séu ekki orðnar fullbókaðar enda hefur salan einungis verið opin í tíu daga.

„Það er alveg nóg til enn þá.“

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. Ljósmynd/Aðsend

Spurður hver sé heitasti áfangastaðurinn svarar Birgir um leið að Íslendingar séu þyrstir í að komast til Tenerife. Mikið sé verið að bóka í kringum næstu jól og páska.

„Það er ekkert langt í það að við förum að bæta við flugum fyrir þá tíma. Það er enn þá bara maí og við sjáum fram á það mikla eftirspurn að við verðum að bæta við flugferðum svo það verði ekki fullt.“

Næsta mánudag munu 80 manns hefja námskeið þar sem áhafnir flugvélanna verða þjálfaðar en fyrsta flug félagsins er 24. júní. Í lok árs segir Birgir að hjá félaginu muni starfa um 200 manns þegar sex vélar verði komnar í starfsemi.  

Mótbárur ASÍ hafa ekki áhrif

Birgir segir mótbárur ASÍ gagnvart flugfélaginu ekki hafa haft áhrif á bókanir síðastliðna viku en mikið hefur verið fjallað um kjaramál starfsmanna Play síðustu daga. Birgir segist hvorki hafa séð neitt niðurslag í bókunum né þá að starfsmenn séu ekki að þiggja störfin.

„Það hefur enginn haft neinar mótbárur eða efasemdir enda var kjarasamningurinn kynntur mjög vel á fundi með öllum starfsmönnum. Ég held líka að umræðan síðustu daga hafi leitt hið sanna í ljós. Þetta snýst ekkert um þessi kjör sem verið er að bjóða heldur snýst þetta um að stéttarfélagið sem við erum að semja við er ekki innan ASÍ,“ segir Birgir og bætir við að kjörin séu mjög sambærileg því sem sést annars staðar á markaðinum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK