Kilroy sækir 1,4 milljarða og stefnir á nýja markaði

Kilroy rekur ferðaskrifstofur á öllum Norðurlöndunum, Hollandi og Belgíu og …
Kilroy rekur ferðaskrifstofur á öllum Norðurlöndunum, Hollandi og Belgíu og horfir til þess að færa sig á fleiri markaði.

Ferðaskrifstofan Kilroy international A/S, sem er í meirihlutaeigu fjárfestingafélagsins  Íslenskar fjárfestingar, lauk nýverið við endurfjármögnun sem nemur 1,4 milljörðum íslenskra króna. Arnar Þórisson, stjórnarformaður Kilroy og annar eigandi Íslenskrar fjárfestingar, segir í samtali við mbl.is að fjármögnunin núna sé bæði til að bæta lausafjárstöðu félagsins, en ekki síður sem grunnur til að geta farið í frekari sókn, en félagið horfir meðal annars til þess að færa sig inn á nýja markaði eftir breytingar hjá samkeppnisaðilum meðan á faraldrinum hefur staðið.

Fóru skuldlaus inn í faraldurinn

Fjármögnunin núna kemur í formi nýs hlutafés og lánsfé sem lagt er fram af núverandi eigendum og fjárfestingasjóðsins Vækstfonden í Danmörku og Danske bank. Kilroy ferðaskrifstofan er í dag með starfsemi á öllum Norðurlöndunum, Hollandi og Belgíu undir nokkrum mismunandi vörumerkjum. Félagið velti sem nemur 35 milljörðum íslenskra króna árið 2019 og var fyrir faraldurinn skuldlaust. Hjá fyrirtækinu störfuðu  um 450 manns árið 2019, en Arnar segir að í faraldrinum hafi talan farið lægst í rúmlega 200 manns.

Fyrirtækið rekur sem fyrr segir starfsemi í fjölda landa og segir Arnar að hægt hafi verið að nýta mismunandi úrræði í mismunandi löndum, en víða hafi verið boðið upp á sambærilegar leiðir og hlutabótaleiðina hér á Íslandi.

12 þúsund farþegar í 123 löndum þegar faraldurinn hófst

Kilroy hefur í gegnum tíðina markað sér sérstöðu meðal annars í stúdentaferðum og segir Arnar að félagið hafi meðal annars mikið horft til þess að bjóða upp á heimsreisur fyrir ungt fólk. Vegna þessa segir hann að háönn hjá fyrirtækinu sé ekkert endilega sumarið eins og hjá mörgum öðrum ferðaskrifstofum, heldur sé álagið nokkuð jafnara yfir allt árið. Segir hann að árið í fyrra hafi farið mjög vel af stað, en svo hafi auðvitað allt stoppa. „Þegar það gerðist voru við með 12 þúsund farþega stadda í 123 löndum,“ segir Arnar og bætir við að mikil vinna hafi verið fólgin í að koma fólkinu heim.

Arnar segist vera bjartsýnn á framhaldið, þó að hann eigi ekkert endilega von á að sumarið verði mjög stórt. Þannig vísar hann til þess að fólk sé í heimsferðahugleiðingum hefji ferðir sínar oft í byrjun á nýju ári, frekar en um mitt sumar. „Þetta er hægt og rólega að fara af stað. Við eigum ekki von á að sumarið verði mjög stórt, en það verður sívaxandi þungi fram á sumarið.“ Þá séu þegar farnar að berast bókanir fyrir stórar ferðir á fyrri hluta næsta árs. Eitt af dótturfélögum Kilroy sem starfar í Írlandi er þó meira í hefðbundnum sumarleyfisferðum og segir Arnar að þar sé mikið komið aftur í gang í bókunum og greinilegt að fólk sé í ferðahug í sumar.

Fari nálægt eðlilegu ástandi á næsta ári

Þegar horft er á stóru myndina segist Arnar trúa því að ferðaþjónustan verði fljót að ná vopnum sínum aftur og að eftirspurn muni fljótt taka við sér. „Ég held að við förum mjög nálægt því að nálgast eðlilegt ástand á næsta ári og árið 2023 verðum við ekki á síðri stað en fyrir Covid,“ segir hann.

Vilja nýta tækifærið á mörkuðum núna

Faraldurinn fór illa með ferðaþjónustufyrirtæki víða og segir Arnar að meðal annars hafi stór ferðaskrifstofa sem hét STA travel farið í gjaldþrot. STA hafi meðal annars verið stórt í stúdentaferðum í Bretlandi og í Þýskalandi. Segir Arnar að Kilroy horfi meðal annars til þess að komast betur inn á þann markað í ljósi breytinga sem hafi orðið á samkeppnismarkaðinum og að fjármögnunin núna sé ekki síst hugsuð fyrir slíkt verkefni. „Við viljum keyra okkar sölu af stað og nýta tækifærið á mörkuðum núna,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK