Búast við 30 þúsund ferðamönnum í júní

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, á von því að ferðamenn sem koma til landsins í júní verði yfir 30 þúsund talsins. Fjöldi farþega í millilandaflugi Icelandair rúmlega tvöfaldaðist á milli mánaða í maí. Sætanýting félagsins í millilandaflugi var 35,2% í maí. Þetta er meðal þess sem kemur fram mánaðarlegum flutningatölum sem Icelandair Group birti í Kauphöllinni í gær.

Heildarfjöldi farþega í millilanda- og innanlandsflugi hjá Icelandair var um 40.000 í maí. Þar af var fjöldi farþega í millilandaflugi um 21.900 samanborið við um 3.200 í maí fyrra. Fjöldi farþega til Íslands var um 14.400 í maí, nær þrefalt fleiri en í apríl, en var aðeins um 1.500 í maí í fyrra. Fjöldi farþega frá Íslandi var um 5.700, sem eru um tvöfalt fleiri en í apríl síðastliðnum, en var aðeins um 1.600 í maí í fyrra. Þá hefur fjöldi farþega yfir hafið tekið lítillega við sér og var rúmlega 1.800 í maí.

Heildarsætaframboð í millilandaflugi hefur aukist töluvert á síðustu tveimur mánuðum og tæplega áttfaldaðist frá því í maí í fyrra. Icelandair hóf í maí flug til Tenerife, Berlínar og München. Til viðbótar við New York og Boston bættust Seattle, Chicago, Denver og Washington við í N-Ameríku.

Nú á fyrri hluta júnímánaðar mun félagið hefja reglulegt áætlunarflug til Zürich og Brussel, Newark-flugvallar við New York. Þá bætast við Helsinki, Hamborg, Genf, Manchester, Mílanó, Billund og Minneapolis seinni hluta júnímánaðar.

Sætanýting félagsins í millilandaflugi var 35,2% í maímánuði samanborið við 29,4% í maí á síðasta ári. Eins og áður hefur komið fram hefur Icelandair á liðnum mánuðum nýtt Boeing 767-vélar á ákveðnum leiðum í stað minni véla í þeim tilgangi að auka fraktrými um borð sem leiðir til lakari sætanýtingar að því er segir í tilkynningu.

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fjöldi farþega Icelandair í innanlandflugi var um 18.000 í maí sem er um 50% aukning frá því í apríl síðastliðnum og tæplega þreföldun á milli ára. „Innanlandsflug Icelandair hefur vaxið jafnt og þétt síðustu mánuði og í júní mun flugframboð í innanlandsflugi ná framboði félagsins á sama tíma á árinu 2019. Rétt er að geta þess að farþegar í flugi til og frá Grænlandi teljast nú með farþegum í millilandaflugi eftir að samþættingu Icelandair og Air Iceland Connect lauk um miðjan mars. Tölum fyrir síðasta ár hefur verið breytt til samræmis,“ segir í tilkynningu.

Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 39%. Fraktflutningar jukust um 24%.

„Það er ánægjulegt að sjá þá aukningu sem orðið hefur bæði í millilandaflugi og innanlandsflugi á undaförnum vikum. Samhliða bólusetningum og auknu svigrúmi til ferðalaga hefur ferðavilji í heiminum aukist. Við finnum fyrir miklum áhuga á Íslandi sem áfangastað og öflugt markaðsstarf okkar erlendis hefur verið að skila sér. Við búumst við að yfir 30 þúsund ferðamenn komi til Íslands með Icelandair í júní. Þá er ánægjulegt hvað innanlandsflugið hefur gengið vel og er framboð okkar í júní svipað og á sama tíma á árinu 2019,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK