Fyrsta flugvélin kemur til landsins á morgun

Flugvél Play hefur verið máluð í einkennislit flugfélagsins.
Flugvél Play hefur verið máluð í einkennislit flugfélagsins. Ljósmynd/Facebook-síða Play

Fyrsta flugvél flugfélagsins Play er væntanleg til landsins á morgun. Hún er sem stendur í Texas í Bandaríkjunum og var verið að mála hana í litum Play.

Vélin verður nýtt til að hefja áætlunarflug Play til Lundúna frá og með 24. júní. „Það er ótrúlega gaman að sjá þetta raungerast allt saman,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Fyrsta flugvél Play er væntanleg til landsins á morgun.
Fyrsta flugvél Play er væntanleg til landsins á morgun.

Frestun afléttinga í Bretlandi hefur lítil áhrif

Aðspurður hvort yfirvofandi frestun á afléttingu takmarkana vegna kórónuveirunnar í Bretlandi muni hafa áhrif á starfsemi Play segir Birgir að flugfélagið hafi þegar ákveðið fyrir nokkru að draga saman framboð á flugi til Lundúna í júlí. „Við felldum niður einhverjar fimm brottfarir ef ég man rétt,“ segir Birgir.

„Við sáum þetta í raun og veru alveg gerast eftir þetta Portúgalsmál hjá þeim þegar Portúgal var allt í einu tekið af græna listanum og það kom smá kuldi í breska markaðinn.

Almennt förum við mjög hægt af stað þannig að það er ekki dagaspursmál hjá okkur, framboð okkar er að byggjast upp fram á síðsumar og haustið. Þannig að þetta snertir okkur ekki mikið,“ segir hann.

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Vopnahlé í deilu við ASÍ

„Við skoðuðum og erum svo sem alveg að skoða okkar stöðu,“ segir Birgir spurður hvort félagið muni höfða meiðyrðamál gegn ASÍ vegna ummæla um flugfélagið.

„Svo þróaðist nú umræðan þannig að gögnin komu fram og ég held að flestir hafi áttað sig á því að ASÍ var bara í réttindagæslu fyrir sitt félag, Flugfreyjufélagið. Ég held að síðasta orðið í þessari deilu hafi ekki verið sagt. En það er allavega eitthvert vopnahlé eins og staðan er núna.

Við náttúrlega bara fögnuðum því að geta sýnt fram á raunveruleg gögn, það hefur aldrei verið hægt að fá gögn yfir starfskjör flugstéttanna fyrr en núna. Þarna leggur Flugfreyjufélag Íslands fram sinn kjarasamning og Viðskiptablaðið gerði mjög flotta greiningu á þeim. Það kom í ljós að við vorum að borga hærri laun, þannig að þetta var nú pínu vandræðalegt upphlaup hjá þeim fannst mér,“ segir Birgir.

Hafa ráðið tæplega 200 starfsmenn

Play hefur nú ráðið til starfa rétt rúmlega hundrað áhafnarmeðlimi, flugmenn og flugliða, og segir Birgir að tuttugu hafi komið til starfa á skrifstofu fyrirtækisins í vikunni. Alls hafa tæplega 200 starfsmenn því verið ráðnir til flugfélagsins.

„Áhafnirnar koma þó svona tiltölulega hægt og rólega inn hjá okkur núna eftir því sem sumarið líður og inn á haustið, því við erum ekki að byrja með svo mikið framboð núna, einmitt vegna þess að ástandið er svo ótryggt,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK