Fjárfesting hins opinbera á réttri leið

Fjárfesting hins opinbera er á réttri leið að mati hagfræðideildar Landsbankans. Ýmislegt mætti betur fara. Nýjar tölur um fjármál hins opinbera sýna að opinberar fjárfestingar jukust um 22,2% að nafnvirði á milli ára á fyrsta ársfjórðungi og eru því á réttri leið miðað við markmið. 

Fram kemur í Hagsjá Landsbankans að fjárfesting ríkissjóðs jókst um 25,8% á milli ára og fjárfesting sveitarfélaganna um 19,2%. 

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir 2020 drógust opinberar fjárfestingar saman um 9,3% eftir 10,8% samdrátt árið áður. Skýtur þessi samdráttur skökku við, t.d. vegna sérstaks fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar sem sett var af stað 2020 að því er fram kemur í Hagsjánni. 

Í ár er spáð mikilli aukningu á fjárfestingum hins opinbera, m.a. vegna tafa við að koma verkefnum af stað. Þannig spáir Hagstofan 17,7% aukningu, Seðlabankinn 32% aukningu og hagfræðideild Landsbankans 25% aukningu. Spár allra þriggja gera svo ráð fyrir að það hægi á ný á fjárfestingum hins opinbera milli 2021 og 2022. 

Samdráttur var í fjárfestingum sveitarfélaga í fyrra en áætlanir fyrir árið 2021 benda til þess að um verulega aukningu verði að ræða. 

Undanfarin ár hafa fjárveitingar til fjárfestinga ríkissjóðs verið mun meiri en raunfjárfestingar ársins. Þannig hafa ónýttar fjárheimildir til fjárfestinga verið 25-30% af samþykktum framlögum síðustu ár. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK