Orkumál á Vestfjörðum tekin til skoðunar

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir hefur skipað starfshóp til að skoða stöðu …
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir hefur skipað starfshóp til að skoða stöðu orkumála á Vestfjörðum og tengsl þeirra við nýsköpun og atvinnutækifæri á svæðinu Sigurður Bogi Sævarsson

Undirbúningur að endurbótum orkumála á Vestfjörðum er nú að hefjast en nýlega var skipaður starfshópur sem falið var að rýna í stöðu orkumála á Vestfjörðum og tengsl þeirra við nýsköpun og atvinnutækifæri á því landsvæði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Starfshópurinn var skipaður af Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og í honum sitja fulltrúar frá Vestfjarðarstofu og Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Orkubúi Vestfjarða, Landsneti, Orkustofnun og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, auk formanns.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kemur fram í tilkynningunni að starfshópurinn muni skoða „orkumál á Vestfjörðum heildstætt, jafnt út frá stöðu mála í flutningskerfi raforku, dreifikerfi raforku, möguleikum til orkuvinnslu á svæðinu og áherslum úr orkustefnu um orkuskipti og afhendingaröryggi raforku á landsvísu.“

Verður hópnum einnig falið að skoða nýsköpun í orkumálum og orkuskipti. Auk þess sem tekið verður til athugunar hvort leggja eigi meiri áherslu á bætta tengingum frá meginflutningskerfi raforku inn á svæðið eða aukna sjálfbærni og sjálfstæði í raforkumálum innan Vestfjarða. Verður samspil framangreindra þátta einnig tekið til skoðunar. 

Ráðherra telur mikilvægt að staða orkumála á Vestfjörðum fari í réttan farveg og segir hún viljann og verkfærin vera til staðar og því mögulegt að taka skref í átt að þessum markmiðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK