Um 24 þúsund hluthafar í Íslandsbanka að loknu útboði

Hluthafar í Íslandsbanka verða um 24 þúsund. Hlutfjárútboði í bankanum lauk á hádegi í gær. Ekki eru fleiri hluthafar í nokkru skráðu fyrirtæki á Íslandi að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum. 

Um er að ræða stærsta frumútboð hlutabréfa sem farið hefur fram hér á landi. Margföld umframeftirspurn var í útboðinu á endanlegu útboðsverði og sýndu almennir fjárfestar og fagfjárfestar útboðinu talsverðan áhuga. Heildareftirspurn nam samtals 486 milljörðum króna eða fjórum milljörðum bandaríkjadala. Áætlað markaðsvirði Íslandsbanka miðað við útboðsverð er 158 milljarðar króna eða 1,3 milljarðar bandaríkjadala. 

Verð á hverjum útboðshlut er 79 krónur, en fjöldi hluta sem seldir eru í útboðinu er 636.363.630, auk allt að 63.636.363 hluta að því gefnu að valréttur til að mæta umframeftirspurn verði að fullu nýttur. 

Heildarsöluandvirði útboðsins, á útboðsverðinu og að því gefnu að valréttir til að mæta umframeftirspurn verði að fullu nýttir, nemur 55,3 milljörðum króna. 

Í samræmi við ákvæði lýsingar og aðrar réttarheimildir var við úthlutun leitast við að stuðla að dreifðu og fjölbreyttu eignarhaldi og að skerða ekki tilboð upp að einni milljón króna. 

Í kjölfar útboðsins mun seljandi, íslenska ríkið, fara með 65% eignarhlut í Íslandsbanka að því gefnu að valréttur verði að fullu nýttur. Gera má ráð fyrir að aðrir innlendir fjárfestar fari með um 24% hlut og erlendir fjárfestar með um 11% af heildarhlutafé bankans. 

Ánægður með vel heppnað útboð

Citigroup Global Markets Europe AG, Íslandsbanki hf. og J.P. Morgan AG höfðu sameiginlega umsjón með útboðinu og voru leiðandi söluráðgjafar ásamt Barclays Bank Ireland PLC, HSBC Continental Europe, Fossum mörkuðum hf. og Landsbankanum hf. Arion banki hf. og Kvika banki hf. voru leiðandi söluaðilar ásamt Arctica Finance hf., Íslenskum fjárfestum hf. og Íslenskum verðbréfum hf. STJ Advisors Group Limited var ráðgjafi seljanda fyrir útboðið og ABN AMRO Bank N.V. var ráðgjafi Íslandsbanka.

„Það er ánægjulegt að sjá niðurstöður úr vel heppnuðu útboði Íslandsbanka. Mikil eftirspurn og þátttaka almennings er sérstaklega ánægjuleg, en hluthafar í Íslandsbanka verða þannig flestir af öllum skráðum félögum á íslenskum markaði,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í tilkynningu frá Íslandsbanka. 

„Leiðir þetta ekki síst af þeirri ákvörðun að heimila áskriftir allt niður í 50 þúsund krónur og að láta áskriftir einstaklinga allt að einni milljón króna óskertar. Salan er ábatasöm fyrir ríkissjóð og kemur sér vel í þeirri uppbyggingu sem fram undan er næstu misseri. Mestu skiptir þó að við tökum hér fyrsta skrefið í að minnka áhættu ríkisins í bankarekstri og færumst nær heilbrigðara umhverfi líkt og þekkist á Norðurlöndum og öðrum nágrannaríkjum okkar,“ segir Bjarni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK