Útgjöld íslenskra ferðamanna 56% af heildarútgjöldum

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 3,9% árið 2020 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga, samanborið við 8% árið 2019. 

Heildarútgjöld ferðamanna á Íslandi, íslenskra og erlendra, námu 220 milljörðum króna árið 2020 og drógust saman um 58% borið saman við árið 2019. Komum erlendra ferðamanna hingað til lands fækkaði um 81% á sama tímabili að því er fram kemur í tilkynningu frá Hagstofu Íslands. 

Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna námu 122 milljörðum króna samkvæmt bráðabirgðatölum, og drógust saman um 14% frá árinu 2019. Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna námu um 56% af heildarútgjöldum ferðamanna á Íslandi árið 2020, samanborið við aðeins 27% af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2019 og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá upphafi tímaraðar árið 2009.

Stærstur hluti útgjalda íslenskra ferðamanna árið 2020 var vegna gistiþjónustu en útgjöldin jukust um tæplega 18% frá árinu 2019. Tæplega 32% aukning er áætluð í útgjöldum íslenskra ferðamanna vegna veitingaþjónustu árið 2020, samanborið við árið á undan. Gistinóttum íslenskra ferðamanna fjölgaði um 40% á sama tímabili.

Heildarútgjöld erlendra ferðamanna námu 98 milljörðum króna árið 2020, samkvæmt bráðabirgðatölum, og drógust saman um 75% samanborið við árið 2019. Stærstur hluti eða um fimmtungur útgjalda erlendra ferðamanna árið 2020 var vegna gistiþjónustu en dróst þó saman um tæp 76% milli ára.

Alls voru komur erlendra ferðamanna hingað til lands tæplega 490 þúsund árið 2020, en þeim fækkaði um 81% frá árinu 2019. Flestir ferðamenn eru gistifarþegar sem koma til landsins með millilandaflugi. Gistifarþegum fækkaði um 76% árið 2020 en gistinóttum um 75%.

Starfsfólki fækkaði verulega 

Starfandi einstaklingum í ferðaþjónustu fækkaði um 31% árið 2020 samanborið við árið 2019, en um 21.000 manns störfuðu í tengslum við ferðaþjónustu árið 2020 samanborið við um 30.800 árið áður. Heildarvinnustundir í ferðaþjónustu drógust saman um 39% en 25,3 milljónir vinnustunda voru unnar árið 2020 samanborið við 41,2 milljónir vinnustundir árið 2019.

Starfandi einstaklingum fækkaði hlutfallslega mest í starfsemi ferðaskrifstofa, farþegaflutninga á landi og gistiþjónustu árið 2020 borið saman við fyrra ár. Starfandi í gistiþjónustu fækkaði um 2.500, eða um 36%, frá árinu 2019. Starfandi fækkaði um 2.000 í starfsemi ferðaskrifstofa, 1.700 í veitingaþjónustu og 1.500 í farþegaflutningum með flugi á sama tímabili.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK