Segir skilyrði um samstarf fyrirtækja flókið

Frestur Samkeppniseftirlitsins fyrir undanþágur á samstarfi fyrirtækja, sem brjóta gegn …
Frestur Samkeppniseftirlitsins fyrir undanþágur á samstarfi fyrirtækja, sem brjóta gegn 10. og 12. grein samkeppnislaga, rennur út um mánaðamót. Eftir það verða fyrirtæki að leggja mat á lögmæti eigin samstarfs sjálf.

Með breytingu á samkeppnislögum sem tók gildi um áramót þurfa fyrirtæki nú að leggja sjálf mat á það hvort samstarf sem þau hyggja á við önnur fyrirtæki standist skilyrði samkeppnislaga um undanþágu frá samráði.

Allt til áramóta var það í höndum Samkeppniseftirlitsins að leggja slíkt mat á fyrirhugað samstarf fyrirtækja.

Þann 1. júlí næstkomandi munu eldri undanþágur sem Samkeppniseftirlitið veitti á grundvelli eldri framkvæmdar falla úr gildi. Þegar í stað munu fyrirtæki því þurfa að leggja sjálf mat á hvort samstarf þeirra standist kröfur um undanþágu og til þess verða þau að reiða sig á leiðbeiningar sem Samkeppniseftirlitið hefur gefið út. 

Samkeppniseftirlitið getur þó enn nýtt valdheimildir sínar eftir á, ef grunur er um að samstarfið hafi ekki verið lögmætt. 

Um þessa lagabreytingu og möguleg áhrif hennar skrifaði Emilía Madeleine Heenen meistararitgerð í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík, sem vakið hefur mikla athygli. 

Emilía Madeleine Heenen lögfræðingur.
Emilía Madeleine Heenen lögfræðingur. Ljósmynd/Aðsend

Skilyrði um undanþágur oft mikill hausverkur

Emilía segir við mbl.is að þau skilyrði sem samstarf fyrirtækja þurfi að uppfylla séu mjög flókin og það liggi ekki alltaf fyrir hvernig túlka skuli mismunandi hugtök og sjónarmið við beitingu þeirra.

Emilía reifar í ritgerð sinni hvað fyrirtæki þurfa að hafa í huga við framkvæmd sjálfsmatsins, svo að best megi stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Emilía segir að þessar tillögur séu með engu móti tæmandi en þær geti komið að praktískum notum, þar sem þær eigi að geta gefið fyrirtækjum góða yfirsýn yfir þau atriði sem leggja þarf mat á við gerð sjálfsmatsins.

Sé farið að tillögum Emilíu, segir hún að fyrirtæki geti með auðveldari hætti „tékkað sig af“ og skoðað hvort samstarf þeirra við önnur fyrirtæki sé lögmætt. 

„Til dæmis er gott fyrir fyritæki að skilja í upphafi, að brjóti fyrirhugað samstarf ekki gegn 10. eða 12. grein samkeppnislaga, þá þarf engar áhyggjur að hafa. Ef samstarfið gerir það hins vegar, þarf að skoða nánar hvort skilyrði til undanþágu séu uppfyllt. Því næst gætu fyrirtæki skoðað hvort fyrirhugað samstarf eigi sér stað á fákeppnismarkaði, eins og oft vill gerast á Íslandi. Ef svo er, gæti þurft að stíga varlega til jarðar, sérstaklega ef samþjöppun á markaði eykst verulega eftir að samstarfið á sér stað.“

Fákeppnisaðstæður á Íslandi geta flækt fyrir

Við umrædda lagabreytingu, þar sem svokallað sjálfsmatskerfi var innleitt, var farið að erlendri fyrirmynd um lagabreytingu, sem reyndist afar vel t.d. innan EES. Breytingin hér á landi getur bæði sparað tíma og fjármuni fyrir hið opinbera og fyrirtæki.

Emilía bendir þó á að miklu skipti að vel takist til við framkvæmd hins nýja fyrirkomulags og að það krefjist skilvirks samstarfs milli fyrirtækja. Takist það megi ætla að hagsmunum neytenda á Íslandi sé best borgið.

Emilía fjallar einnig um það í ritgerð sinni að margir af mikilvægustu mörkuðum á Íslandi einkennist af mikilli samþjöppun og fákeppni.

„Slíkir markaðir geta oft verið viðkvæmari en aðrir. Sú staðreynd getur spilað stóran þátt í því hvernig íslensk fyrirtæki þurfa að leggja mat á skilyrði fyrir undanþágu frá samráði. Það getur þá mögulega þýtt að matið muni vera enn strangara en tilefni er til erlendis þar sem markaðir eru stærri og samþjöppun minni.“

Eins og fyrr segir telur Emilía að reyna þurfi á sjálfsmatskerfið í einhver ár svo að hægt sé að dæma um ágæti þess. En þó þurfa þau fyrirtæki, sem fengið höfðu undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu og enn var í gildi um áramótin, að leggja sjálf mat á það hvort samstarf þeirra uppfylli enn skilyrði 15. greinar samkeppnislaga fyrir 1. júlí næstkomandi.

„Nú verðum við svolítið bara að bíða og sjá. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þetta spilast og hvernig fyrirtækjum, og eftir atvikum lögmönnum, muni takast að leggja mat á umrædd skilyrði.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK