Stoppa lengur og eyða meiru

Bandaríkjamenn hafa verið í miklum meirihluta meðal ferðamanna síðan landamærin …
Bandaríkjamenn hafa verið í miklum meirihluta meðal ferðamanna síðan landamærin voru opnuð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Horfur ferðaþjónustunnar batna með hverjum deginum. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að mesti vendipunkturinn hafi verið þegar ferðamönnum utan Schengen, bólusettum og með mótefnavottorð, var hleypt inn í byrjun apríl.

„Það færði allar þessar tímalínur fram um einn og hálfan mánuð en bandaríski markaðurinn tók strax við sér,“ segir Jóhannes og bætir við að í júní megi sjá töluverða aukningu sem annars hefði ekki orðið.

Spá Seðlabankans gæti gengið upp

Bandaríkjamenn eru komnir vel á veg hvað bólusetningar varðar en staðan í Evrópu er enn töluvert erfiðari svo búast má við að markaðurinn þar taki ekki almennilega við sér fyrr en í lok júlí eða alveg inn í september.

Ástandið er betra en búist var við, að mati Jóhannesar. „Þessi ákvörðun, að opna fyrir Bandaríkjamönnum, gerði það að verkum að við erum farin að sjá fram á að spár Seðlabankans og greiningardeildanna um 700–800 þúsund ferðamenn á árinu, geti gengið upp.“

Bókanir eru að taka töluvert við sér í samræmi við fjölgun ferðamanna og er bókunarstaðan orðin talsvert betri ef litið er til seinni hluta sumars.

Skilja eftir sig meira verðmæti

Íslandsgestir núna eru fyrst og fremst Bandaríkjamenn sem virðast ekki hafa orðið fyrir áhrifum efnahagslega heima fyrir og eiga peninga til að ferðast, að sögn Jóhannesar. Í ferðamannaiðnaðinum eru slíkir ferðamenn oft kallaðir „first movers“ en um er að ræða fólk sem hefur bara verið að bíða eftir að komast af stað.

Þessi hópur virðist skilja eftir sig meira verðmæti hlutfallslega en hópar undanfarinna ára. Hér kemur að vísu inn samspil þátta. Fólk hefur ekki ferðast mikið síðustu 18 mánuði og á því uppsafnaða ferðapeninga. Það stoppar fleiri nætur, kaupir því meiri afþreyingu og fer meira út á land.

„Við erum að njóta góðs af svokölluðum loksins komumst við burt-áhrifum,“ segir Jóhannes.

Flugvöllurinn tekur við sér

Icelandair hefur bætt við sig áfangastöðum og áætlunarferðum núna í júní, fyrsta flug Play verður á fimmtudaginn og sífellt fleiri flugfélög bætast í hóp þeirra sem koma við á Keflavíkurflugvelli en flugfélögin eru nú 14 talsins.

Líkt og áður hefur komið fram segir Jóhannes að Evrópumarkaðurinn einbeiti sér að seinni hluta sumarsins og inn í haustið. Helst það í hendur við bólusetningar. Hins vegar segir hann einhver ummerki um ferðaþyrsta Evrópubúa byrjuð að gera vart við sig fyrir mánaðamótin júní/júlí og þá sé ekki ólíklegt að Evrópuflugið frá Play og fjölgun flugfélaga hafi áhrif.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK