Fyndnar ásakanir væru þær ekki svona alvarlegar

„Þetta er auðvitað bara hluti af svona skráningu, þá þarf …
„Þetta er auðvitað bara hluti af svona skráningu, þá þarf að gefa allt upp,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play. mbl.is

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segist ekki hafa áhyggjur af umræðunni sem skapaðist eftir opinberun útboðsgagna fyrirtækisins um mál hans og stjórnarmanna félagsins sem eru til rannsóknar hjá yfirvöldum. Hann vísar á á bug ásökunum um að hafa notað flugrekstrarhandbækur WOW air til að fá leyfi fyrir Play.

„Kæmi ýmislegt í ljós“

„Þetta er auðvitað bara hluti af svona skráningu, þá þarf að gefa allt upp,“ segir Birgir en hann telur málin ekki þannig vaxin að þau eigi að hafa áhrif á kaupvilja fjárfesta í hlutafjárútboðinu sem hefst á fimmtudaginn.

„Auðvitað áttum við okkur á því að það getur einhver fundið eitthvað neikvætt við þetta, en ef allir einstaklingar myndu opna inn í sín persónulegu fjármál þá kæmi ýmislegt í ljós,“ bætir hann við.

Málin sem um ræðir eru mál Einars Arnar Ólafssonar, stjórnarformanns Play, vegna meintra brota í tengslum við söluna á Skeljungi. Einnig Mál Birgis sjálfs sem varðar tekjuskatt og hefur verið til rannsóknar frá 2018 og svo skattrannsókn sem beinist að Maríu Rún Rúnarsdóttur, stjórnarmanni Play, í tengslum við skattframtal hennar á árunum 2011 og 2012.

Engar áhyggjur

Í viðskiptalífinu eru reglur og embætti sem hafa það hlutverk að sjá um að reglum sé fylgt. Birgir telur ekkert að því að þessi embætti taki mál til skoðunar enda sé það þeirra hlutverk. Hann segist aldrei hafa orðið var við annað er faglega meðferð mála og hefur því engar áhyggjur.

Aðspurður hvort það muni hafa afleiðingar fyrir fyrirtækið ef niðurstaðan verði á þá leið að gefnar verði út ákærur, bendir Birgir á að málin hafi verið í gangi mjög lengi án niðurstöðu. „Við búum í réttarríki og það er bara eitthvert ferli í gangi. Ekkert við því að gera fyrr en að því kemur.“

Ásakanir Ballarin

USAAerospace Partners, fyrirtæki Michelle Ballarin, hefur óskað eftir skýrslutöku á ellefu einstaklingum sem tengdust WOW air vegna horfinna flugrekstrarhandbóka sem Ballarin taldi sig hafa keypt úr þrotabúi WOW. 

Þrír þessara einstaklinga voru í hópnum sem kom að stofnun Play. Birgir segir að þeir hafi fyrst lesið um þessa skýrslutökubeiðni í fjölmiðlum í morgun en lengra hafi það ekki náð.

„Þetta er algerlega fjarstæðukennt og ég veit ekki hversu mikið vægi maður á að gefa ásökunum úr þessari átt. Þetta kemur frá aðila sem á sama tíma segist ekki viðurkenna íslenska dómstóla og ætli sér því ekki að gangast við dómi um að greiða einhverja skuld.“

Birgir segir þetta gríðarlega alvarlegar ásakanir, ekki síst fyrir Samgöngustofu sem er búin að fara yfir og votta öll gögn Play til grundvallar flugrekstrarleyfi. Honum þykir þetta ekki svaravert enda ættu svona mál að fara í gegnum opinberar leiðir líkt og þær að Samgöngustofa geri athugasemdir. 

„Það er svo talað eins og þetta séu bara einhverjar bækur sem hafi horfið en þetta er allt geymt á rafrænum stöðum og flugrekstrarbækur eins flugfélags nýtast ekki fyrir annað flugfélag,“ bendir Birgir á og bætir svo við að ef þetta væri ekki svona alvarlegt, væri þetta bara fyndið.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK