Mikil viðskipti með bréf Íslandsbanka

Íslandsbanki í Norðurturninum.
Íslandsbanki í Norðurturninum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Nokkuð hefur borið á ábendingum fólks sem keypti sér hlut í Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans að bréfin séu ekki komin inn á verðbréfareikning og því ekki hægt að eiga viðskipti með þau í dag, á fyrsta viðskiptadegi bankans í Kauphöll Íslands. 

Að sögn Björns Bergs Gunnarssonar, deildarstjóra Íslandsbanka, kom fram í útboðsgögnum fyrir bréf í bankanum að það gæti tekið allt að tvo daga eftir greiðslu fyrir bréf að vera útdeilt á verðbréfareikning.

Eindagi greiðslna fyrir bréfin var í gær og ættu því bréf greidd í gær að vera komin inn á verðbréfareikninga á morgun, að sögn Björns. 

Af þessu leiðir að fólk sem ekki hefur fengið útdeilt bréfum sínum getur ekki selt þau.

Spurður hvort verðmyndun dagsins á bréfum í Íslandsbanka geti talist eðlileg af þessum sökum segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, að verðmyndun í dag ætti að vera í góðu lagi miðað við viðskipti það sem af er degi.

400 viðskipti það sem af er degi 

Laust fyrir hádegi í dag höfðu um 400 viðskipti átt sér stað með bréf Íslandsbanka. 

„Það er rúmlega sá fjöldi sem er að meðaltali á íslenska markaðnum á degi hverjum,“ segir Magnús. Hann segir að um 3,7 milljarðar hafi skipt um hendur í viðskiptum með bréf Íslandsbanka áður en dagurinn var hálfnaður. 

„Ég óttast nú ekki að verðmyndunin sé ekki í lagi, en það er vont ef fólk er ekki búið að fá bréfin sín afhent,“ segir Magnús. 

Magnús segir að nokkur viðskipti hafi átt sér stað fyrir hádegi með yfir milljón hluti og ein fyrir yfir tíu milljón hluti. Meðaltal er 103 þúsund hlutir. 

Bréf fyrir tvö þúsund hluti og minna, sem líklega eru öll einstaklingsviðskipti fyrir um 180 þúsund krónur og minna, eru yfir 60. Ef litið er til viðskipta fyrir um milljón krónur og undir, eru langflest viðskipti fyrir 12.658 bréf sem var skammturinn á einstaklinga án skerðinga. Undir þennan flokk falla um 300 viðskipti það sem af er degi.

Ríkisstjórnin slegið rétta tóninn 

„Það er slatti af viðskiptum sem eru í því sem við myndum kalla einstaklingsstærðir,“ segir Magnús. 

Magnús segir að þessi mikli fjöldi á viðskiptum í dag og mikli almenni áhugi á útboðum segi okkur að almenningur sýni viðskiptum með verðbréf mikinn áhuga. „Sem er mikið gleðiefni. Ég held að ríkisstjórnin hafi alveg slegið rétta tóninn með því að stilla þetta þannig af að einstaklingar kæmu sterkir að þessu. Einstaklingar eru svo mikilvægir fyrir fjármögnun minni fyrirtækja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK