Kaupa í Icelandair fyrir átta milljarða króna

Samningurinn var undirritaður í dag.
Samningurinn var undirritaður í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn Bain Capital hefur gert samning um kaup á 16,6% hlut í Icelandair Group. Verði viðskiptin samþykkt mun stjórnarformaðurinn Úlfar Steindórsson stíga til hliðar sem stjórnarmaður. 

Frá þessu greinir flugfélagið í tilkynningu.

Þar er tekið fram að Icelandair Group og Bain Capital hafi fyrr í dag gert bindandi samkomulag um að Bain skrái sig fyrir samtals 5.659.094.470 nýjum hlutum í Icelandair Group, á genginu 1,43 kr. á hlut eða sem nemur rétt tæplega 8,1 milljarði króna að kaupvirði.

Að viðskiptunum loknum muni eign Bain svara til 16,6% hlutar í félaginu.

Úlfar muni víkja sem stjórnarmaður

„Samkomulagið er með fyrirvara um samþykki hluthafafundar, og að hluthafar falli frá forgangsrétti að nýjum hlutum í félaginu. Þá er í samkomulaginu skilyrði um að Bain Capital fái fulltrúa í stjórn félagsins. Úlfar Steindórsson mun stíga til hliðar sem stjórnarmaður í félaginu verði viðskiptin samþykkt á hluthafafundi,“ segir í tilkynningunni.

Úlfar er sem stendur stjórnarformaður félagsins, eins og áður sagði, og hefur setið í stjórninni frá árinu 2010.

Icelandair Group gerir ráð fyrir að halda hluthafafund hinn 23. júlí 2021. Hömlur eru á viðskiptum með hina nýju hluti í 180 daga frá töku þeirra til viðskipta á aðalmarkaði kauphallarinnar.

„Bain Capital mun að auki fá áskriftarréttindi fyrir hlutum sem samsvara 25% af heildarfjölda þeirra nýju hluta sem gefnir verða út. Heimildin gildir í tíu daga frá og með birtingu uppgjörs félagsins fyrir annan ársfjórðung 2022. Áskriftarréttindin veita Bain heimild, en ekki skyldu, til kaupa á nýjum almennum hlutum í félaginu á sama gengi á hvern hlut að viðbættum 15% ársvöxtum,“ segir í tilkynningunni. 

Hlutafjáraukningin er sögð munu styrkja fjárhagsstöðu Icelandair Group enn frekar og auka fjárhagslegt bolmagn félagsins til að nýta þau tækifæri sem skapast muni í þeirri fordæmalausu stöðu sem nú sé uppi á flugmörkuðum.

Mikilvæg viðurkenning

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, að það sé gleðiefni að bjóða sjóðinn velkominn í sterkan og fjölbreyttan hluthafahóp.

„Við erum ánægð með að fá í hópinn leiðandi fjárfesti á heimsvísu með mikla þekkingu á fluggeiranum. Samkomulagið er auk þess mikilvæg viðurkenning á því ötula starfi sem starfsfólk Icelandair hefur unnið til að tryggja bjarta framtíð félagsins. Við hlökkum til samstarfsins og að nýta þau miklu tækifæri sem við sjáum í viðskiptalíkani Icelandair eftir heimsfaraldurinn.“

Viðskiptalíkanið samkeppnishæft til lengri tíma

Þá er haft eftir Matthew Evans, framkvæmdastjóra Bain Capital Credit, að sjóðurinn sé mjög spenntur fyrir því að bæta Icelandair Group í fjölbreytt eignasafn í flugtengdri starfsemi, og að styðja við flugfélagið í næsta kafla 84 ára sögu þess.

„Þótt líklegt sé að það taki ferðaþjónustu í heiminum nokkurn tíma að ná fullum styrk á ný, deilum við þeirri trú með stjórnendum Icelandair að viðskiptalíkan félagsins sé mjög samkeppnishæft til lengri tíma og að félagið hafi rekstrarsögu sem setur það í kjörstöðu til þess að nýta sér þau tækifæri sem verða til nú þegar heimsfaraldurinn er í rénun. Við erum sannfærð um að víðtæk reynsla okkar úr fluggeiranum og virðisaukandi nálgun muni styðja við vöxt Icelandair til hagsbóta fyrir alla hluthafa.“ 

Um Bain Capital

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK