Ætla sér að gera hlutina skynsamlega

Með hlutafjárútboðinu er stefnan sett á að safna fjórum milljörðum …
Með hlutafjárútboðinu er stefnan sett á að safna fjórum milljörðum íslenskra króna. mbl.is/Unnur Karen

Flugfélagið Play ætlar sér að safna fjórum milljörðum króna í hlutafjárútboðinu sem nú er hafið. Rekstur félagsins er, óháð því, sagður fjármagnaður til ársins 2025. Forstjóri Play og stjórnarformaður líta björtum augum til framtíðar. 

Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play, var viðstaddur þegar flugvélin hélt í sína fyrstu ferð í dag en hann var einnig með hugann við annað mikilvægt skref fyrirtækisins. Á sama tíma hófst einmitt hlutafjárútboð Play sem lýkur á morgun klukkan 16. Bréfum verður svo úthlutað eftir helgi.

Mikil þátttaka hefur verið í útboðum annarra félaga upp á síðkastið og Einar telur það sýna að hlutabréfamarkaðurinn sé sterkur núna, svo útboðið sé að eiga sér stað á góðum tíma. Hann segist finna fyrir miklum áhuga á félaginu. 

Reksturinn fjármagnaður til 2025

Með hlutafjárútboðinu er stefnan sett á að safna fjórum milljörðum íslenskra króna. Birgir Jónsson, forstjóri Play, sagði að óháð útboðinu væri Play nú þegar með tryggt fjármagn til að geta staðið undir rekstri til ársins 2025.

Hann sagði það ekki skipta máli fyrir reksturinn þótt vélarnar væru ekki fullar fyrstu mánuðina en fyrsta ferð Play til Lundúna í dag var aðeins hálffull eða með 100 farþegum.

Birgir sagði að ástandið í Lundúnum hefði líka einhver áhrif á það enda hafa yfirvöld í Bretlandi seinkað tilslökunum svo enn eru einhverjar takmarkanir við lýði. 

Sveigjanleiki, leiðarkerfi og fjármagn

Ef litið er til baka hefur sagan ekki verið allt of hliðholl fyrri lággjaldaflugfélögum sem komið hafa á íslenskan markað til að keppa við Icelandair. Birgir segir tveggja ára vinnu búa að baki stofnun Play sem sé vel fjármagnað og ætli sér að gera hlutina skynsamlega.

Flugfélagið ætlar að leggja upp úr sveigjanleika og halda sig við leiðakerfi sem gengur aðallega út á að tengja Bandaríkin og Evrópu. Með því að skrá félagið á markað séu einnig gerðar meiri kröfur til gagnsæis og skipulags. 

Birgir Jónsson forstjóri Play og Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta …
Birgir Jónsson forstjóri Play og Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, klipptu á borða í tilefni af jómfrúarflugi Play. mbl.is/Unnur Karen

Birgir hélt ræðu þegar áður en hann klippti á borðann þar sem hann sagði þetta tilfinningaríka stund, að sjá hlutina raungerast. Þá átti hann bæði við fyrsta áætlunarflugið og skráningu félagsins á markað.

„Við ætlum að láta íslenska ferðaþjónustu og efnahag finna fyrir okkur.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK