Mismunandi kröfur á milli landa sýndar myndrænt

Á vefsíðu Icelandair má finna kort Sherpa sem heldur utan …
Á vefsíðu Icelandair má finna kort Sherpa sem heldur utan um allar helstu ferðatakmarkanir. Skjáskot/Sherpa

Nokkuð mismunandi kröfur eru á milli landa vegna Covid-19 og getur innritun á Keflavíkurflugvelli því verið flókin. Til þess að auðvelda farþegum að afla sér nauðsynlegra upplýsinga fyrir ferðalagið hefur Icelandair tekið upplýsingakerfið Sherpa í gagnið og hvetur félagið fólk til þess að mæta snemma á flugvöllinn. 

Kerfið, sem er aðgengilegt á vef Icelandair, heldur myndrænt utan um helstu upplýsingar um ferðatakmarkanir og nauðsynlegar sóttvarnaráðstafanir í hverju landi fyrir sig. Með því að slá inn upplýsingar um hvaðan ferðast er og hvert, auk stöðu bólusetningar viðkomandi farþega, breytast litir landa á heimskorti eftir því hvaða takmarkanir eiga við. Kerfið nýtist öllum þeim sem hyggja á ferðir milli landa, hvort sem ferðast er með Icelandair eða öðrum flugfélögum. Bæði er hægt að finna þá áfangastaði þar sem minnstar takmarkanir eru og fá skýran lista yfir þær kröfur sem gilda um viðkomandi farþega á viðkomandi áfangastað,“ segir í tilkynningu frá Icelandair. 

Þá hefur flugfélagið tekið saman almennar upplýsingar um sóttvarnakröfur og ferðatakmarkanir á áfangastöðum félagsins á vefsíðu sinni.

„Þar er meðal annars hægt að nálgast opinberar vefsíður yfirvalda í löndum sem Icelandair flýgur til og skráningarform ef þörf er á forskráningu eða vottorði í viðkomandi landi. Að auki sendir Icelandair farþegum sínum upplýsingapóst fyrir brottför þar sem farið er yfir það helsta sem hafa þarf í huga fyrir ferðalagið.“

Fá margar spurningar um ferðatakmarkanir

Í tilkynningu er haft eftir Birnu Ósk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs Icelandair, að félaginu þyki mikilvægt að aðstoða farþega eftir bestu getu við undirbúning ferðalagsins. 

Við fáum mikið af spurningum um ferðatakmarkanir og hvers er að vænta á ferðalögum á þessum tímum og höfum því innleitt ýmsar stafrænar lausnir til að bæta upplýsingagjöf til farþega okkar enn frekar. Sherpa-kerfið er þar fremst í flokki og hvetjum við viðskiptavini til að kynna sér upplýsingar um sinn áfangastað áður en ferðast er. Eins og við þekkjum öll geta kröfur í hverju landi breyst hratt og viljum við með þessu auðvelda farþegum að nálgast þær upplýsingar sem þarf til að ferðalagið verði eins þægilegt og kostur er. Þar leikur skilvirk upplýsingagjöf og góður undirbúningur fyrir brottför stórt hlutverk,“ er haft eftir Birnu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK