Fiskeldið þrýstir verði sjávarafurðanna niður

Ragnar Árnason, prófessor emeritus í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, segir mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir að fyrning veiðiheimilda og sértæk skattlagning á sjávarútveginn hér á landi hafi afleiðingar fyrir þróun greinarinnar og um leið þau verðmæti sem hún getur skapað íslensku þjóðarbúi. Það birtist í því að íþyngjandi aðgerðir gagnvart útgerðinni hafi áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á alþjóðamörkuðum.

„Þar er samkeppnin mjög bitur um bestu markaðina og hún er enn bitrari en hún var árið 2010 eða við upphaf kvótakerfisins á Íslandi vegna þess að fiskeldi fer mjög vaxandi og þrýstir mjög á fiskmarkaði í heiminum.“

Ragnar er gestur í Dagmálum, streymisþætti á mbl.is sem aðgengilegur er áskrifendum Morgunblaðsins. Þar ræðir hann um málefni sjávarútvegsins ásamt Daða Má Kristóferssyni, prófessor í auðlindahagfræði við HÍ og varaformanni Viðreisnar.

Nátengdir markaðir

Bendir Ragnar á að þótt ekki sé alltaf um sömu fisktegundir að ræða sem komi úr eldi og veiðum úr villtum stofnum þá séu markaðirnir hinir sömu eða nátengdir.

„Aukið framboð á markaði sem kemur frá fiskeldi fer mikið til inn á sömu markaðina eða nátengda markaði, þ.e. fiskur er fiskur og lax getur komið í staðinn fyrir þorsk í neyslu manna og þetta aukna framboð getur ekki gert annað en það að þrýsta verðinu niður. Ágætt dæmi um þetta er rækjan. Við gerðum það mjög gott hérna fyrir allmörgum áratugum að veiða rækju, kaldsjávarrækju á Íslandsmiðum. Það voru mikil uppgrip í því og verðið var gríðarlega hátt. Síðan hófst gríðarlega mikið rækjueldi í nótum í suðlægari löndum og það gerði það að verkum að veiðar á rækju á Íslandsmiðum eru eiginlega ekki hagkvæmar lengur.“

Segir Ragnar engan vafa leika á því að verð á þorski og öðrum fisktegundum sem Íslendingar nýti sé lægra nú en hefði orðið, ef fiskeldinu hefði ekki vaxið sá fiskur um hrygg á síðustu árum sem raun ber vitni.

„Þetta er til að undirstrika að það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þjóðina að við fáum sem allra hæst verð fyrir þann fisk sem við getum veitt á Íslandsmiðum og auðlindirnar leyfa okkur að ná upp og þetta verð lækkar ef okkur tekst ekki eins vel og öðrum að markaðssetja þessar vörur á bestu mörkuðum. Til þessa hefur okkur tekist þetta mjög vel. Við höfðum ákveðið forskot í okkar kvótakerfi, vorum á undan öðrum þjóðum en ef við skattleggjum okkar sjávarútveg þá mun hann ekki geta haldið í bestu markaðina þar sem verðið er hæst því hann getur ekki keppt við sjávarútveg annarra þjóða sem eru að reyna að komast inn á sömu markaði með jafnvel betra kvótakerfi en við höfum í dag, öflugra kvótakerfi, og þarf ekki að greiða þessi sérstöku gjöld sem við leggjum á okkar sjávarútveg.“

Þátt­ur­inn er op­inn öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast hann á mbl.is.

Hægt er að horfa á þátt­inn í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK