Kallar eftir framtíðarsýn stjórnvalda í faraldrinum

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnvöld þurfa að setja fram skýra framtíðarsýn og markmið í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play.

„Stjórnvöld á Íslandi þurfa að vera með skýra stefnu, það þarf að vera skýrt til hvers er barist og hver markmiðin eru í raun og veru. Maður er fyrst og fremst að skynja að fólk átti sig ekki alveg á því, einu sinni var markmiðið að verja heilbrigðiskerfið og svo eldra fólkið en nú er fólk kannski ekki alveg með á hreinu hver tilgangurinn er,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Aðgerðirnar sem stjórnvöld kynntu í gær, um að bólusettir þurfi að framvísa neikvæðu veiruprófi þegar þeir ferðast til landsins, séu íþyngjandi fyrir ferðaþjónustuna og Play, en miklu máli skipti að mótefnahraðpróf hafi verið leyfð til viðbótar við PCR-próf.

Flugfélagið sjái ekki holskeflu af afbókunum en fólk sé vissulega að spyrja um nýjar reglur og kynna sér þær.

Hófu rekstur vitandi af heimsfaraldrinum

Birgir segir Play hafa mikinn sveigjanleika og er bjartsýnn á framhaldið.

„Við höfum gríðarlega mikinn sveigjanleika og erum að nota hann núna á næstu mánuðum. Við erum að borga flugvélarnar okkar á klukkutímagrundvelli þannig að við í raun og veru getum, og erum að hefja starfsemina mjög hægt þannig að okkar rekstur er ekki undir á næstu mánuðum. Við hófum þennan rekstur vitandi af heimsfaraldrinum og vissum hvernig við gætum hagað seglum eftir vindi. Þetta hefur ekki áhrif á það,“ segir hann.

Hann bætir við: „Það er mjög hættulegt eins og er á Íslandi að það sé verið að skipta þessum hagsmunum upp, eins og maður er að upplifa núna. Menningarlífið á móti ferðaþjónustunni eða eitthvað slíkt.

Við erum öll í sama bátnum og sitjum hér á litlum steini í miðju ballarhafi og þurfum ferðamenn og krónur í kassann og það fer út í samneysluna. Þannig að við verðum að reyna að horfa á þetta heildstætt.

Á sama tíma er ég alls ekki að segja að það verði að galopna allt, við verðum bara að ná einhverri skynsamri nálgun svo allir geti verið sammála um hvert heildarmarkmiðið og hagsmunirnir eru.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK